top of page

ForA Gallery Berlin: Flatleikhús fyrir ójafna byltingu - Ómar Stefánsson

508A4884.JPG

fimmtudagur, 10. mars 2022

ForA Gallery Berlin: Flatleikhús fyrir ójafna byltingu - Ómar Stefánsson

Ómar Stefánsson opnar sýninguna „Flatleikhús fyrir ójafna byltingu“ í ForA galleríi í Berlín þann 12. Mars, 19:00 - 22:00. Á sýningunni verða tugir málverka og skissubækur til sýnis, sem spannar yfirlit á verkum sem listamaðurinn vann síðastliðin fimm ár á vinnustofu sinni í Berlín. Sýningin stendur til 30. mars.

Inntak verkanna endurspeglast í titli sýningarinnar, sem leiðir okkur í gegnum ljóðræna og gróteska satýru þess að vera lifandi og deyjandi mannvera. Skýjavél í innilokaðri hvelfingu stýrir flóði og fjöru en á meðan tilheyrir mannveran þyngdaraflinu með öðrum botnverum sem hún speglar sig í við daglegar athafnir. Byggingarlist orða og hugmynda talast á við áþreifanlegan strúktúr bygginga í málverkum Ómars, sem eru formalísk og súrrealísk í senn. Form taka á sig lifandi mynd, virðast geta fært sig um set og endurraðast á hverri stundu. Maðurinn vex inn í sjálfan sig, út úr sjálfum sér, verður hús, verður dýr og rólar sér í orðinu á leikvelli tilverunnar. Við virðumst búa í tilbúnum heimi þar sem ekkert er tilviljunum háð. Það sama er þó ekki hægt að segja um teikninguna í málverkum Ómars, sem birtast manni sem villt og ótamin fyrirbæri. Kröftugar og öruggar strokur draga upp heim sem sameinar allar listastefnur 20. aldarinnar og þótt lengra aftur væri litið. Ofsafengið og hömlulaust myndefnið hefur augljós tengsl inn í verk jafn ólíkra listamanna eins og Otto Dix, Hiernonymous Bosch og Hans Bellmer. Flatleikhúsið er mynd af heiminum á tímum ójafnrar byltingar, þar sem ekki er allt sem sýnist.

Ómar Stefánsson byrjaði að halda dagbók á þýsku þegar hann fór aftur til Berlínar árið 2017 og á sýningunni Flatleikhús fyrir ójafna byltingu er sýnishorn af bókunum sem hann fyllti á árunum 2017-2022. Þar greinir hann frá daglegum atburðum, hugleiðingum, hugmyndum og afdrifum sínum á stormasömum árum í Berlín sem enda með líkamsdauða á spítalanum Charité í nóvember 2021 og endurlífgun með endurfæðingu í stjörnumerki Sporðdrekans. Síður bókanna eru einnig fylltar með teikningum og klippimyndum sem lýsa fimmvíðum veruleika listamannsins á tvívíðu formi, svipað og þegar þrívíðu landslagi er varpað á flöt.

Ómar Stefánsson hefur verið talinn meðal fremstu málara Íslands jafnframt hefur hann staðið fyrir umdeildum gerningum með Bruna BB og Inferno 5. Hann er fæddur árið 1960 og hóf nám 16 ára við Mynd- og Handíðaskólanum. Útskrifaðist úr Nýlistadeildinni árið 1981 og fór á meðan náminu stóð í þriggja vikna gjörningaferðalag með Hermann Nitsch um Evrópu. Ári seinna hóf Ómar framhaldsnám í Berlín og lauk þar Meisterschuler hjá Professor Klaus Fussman í málaralist árið 1987 frá Hochscule der kunste. Ómar hefur meðal annars sýnt verk sín á sýningu með Cy Twombly, Joseph Beuys í Gallery Händschin í Basel, Sviss og Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur hafa keypt málverk eftir hann. Tækniskóli Íslands á einnig verk eftir Ómar, sem og Eimskip og hann vann einnig verk sérstaklega fyrir lestarstöðina í Base, Sviss, ásamt listamönnunum Dieter Roth, Dominik Steiger og André Thomkins. Sýningarstjórn og texti: Freyja Eilíf

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page