Fegurð álfheima: Myndlistarsýning Álfheiðar Ólafsdóttur
miðvikudagur, 1. febrúar 2023
Fegurð álfheima: Myndlistarsýning Álfheiðar Ólafsdóttur
Föstudaginn 3. febrúar klukkan 17-22 opnar Álfheiður Ólafsdóttir sýningu á olíumálverkum í salnum á efri hæð Gallerý Grásteins, Skólavörðustíg 4, og er sýningin hluti af vetrarhátíð 2023. Myndlistarmaðurinn er sjálfur á staðnum og spjallar við gesti um sýningu sína og ljúfar veitingar verða í boði. Sýning Álfheiðar gefur innsýn í dulúðarheim álfa sem einkennist af mýkt, fegurð og gleði enda var sköpunarferlið ævintýri líkast. Álfheiður lýsir því á skemmtilegan hátt hvernig hugmyndin að sýningunni kviknaði:
„Að fegurðin kemur innan frá er sannarlega rétt. Grunnurinn af þessari sýningu eru kynni mín af álfinum Fróða. Hann birtist mér á haustdögum glaðlegur, kvikk og skemmtilegur náungi. Ég var í heimsókn hjá Ragnhildi Jónsdóttur sem áður rak Álfagarðinn í Hellisgerði og hún sagði mér að Fróði hefði flutt með sér frá Hafnarfirði upp í Hvalfjörð. Samkvæmt henni er hann rithöfundur í álfheimum og hefur gefið út margar bækur. Hann er 900 ára og hefur alla tíð verið glaður og smáhrekkjóttur. Ég leit í kring um mig og sá ekki þann sem um var rætt. Þá nefndi Ragnhildur að hann vildi ólmur gefa mér bók sem hann gaf út í mannheimum. Ég varð eitt spurningarmerki í framan, hvernig getur átt sér stað að álfar gefi út bækur? Gefum Ragnhildi orðið: „Ég steinsofnaði og mig dreymdi þessa bók, þegar ég vaknaði skrifaði ég hana strax niður svo að ég myndi muna allan textann.“ Hún fjallar um álfa og hvernig við getum séð þá. Á meðan hún var að lýsa þessu fór hún augnablik fram til að sækja bókina.
Ég beið í stofunni og sá þá veru sem hljóp fram og til baka með snöggum hreyfingum. Þetta var Fróði álfur; hann var svo léttur á sér og glettinn að ég hélt að ég væri að ímynda mér þessa sýn. En miðað við lýsingu Ragnhildar þá var þetta hann. Ég varð ótrúlega glöð og þótti svo vænt um að fá að sjá hann. Hann sagðist vera svo ljótur að hann vildi alls ekki að Ragnhildur hefði teikningu af sér í bókinni; þá myndi hún örugglega ekki seljast. En ég festi andlitið hans á striga eins og ég sá hann; mér finnst hann sannarlega ekki ljótur því að fegurðin kemur innan frá og mótast af því hvernig við hugsum.
Álfarnir eru leiðir yfir því að við mannfólkið erum farin að fjarlægjast þá; þeir sakna okkar eins og við söknum þeirra. Við Ása vinkona sannreyndum að fara alveg eftir bókinni hans Fróða. Við fórum upp í Múla, bústað okkar við Skálafell, þar sem ég tel að séu álfar sem hafa áhuga á að tengjast okkur. Við lögðumst sitthvoru megin við fuglaþúfu sem er sunnan við bústaðinn. Dáðumst að öllu því litla og smáa í náttúrunni í kringum okkur og hlustuðum á þögnina. Við lokuðum augunum, fórum í djúpa hugleiðslu og nutum stundarinnar í þögn.
Ég velti mér á hliðina þar sem sveigð okkurgul puntstráin báru við fagurbláan himinn. Augnablik sá ég örlitla álfastelpu; hún var í brúnum kjól, með dökkar fléttur sem féllu niður bakið; hún nældi sér í eitt puntstráið og sveigði það niður í áttina að jörðinni; svo hvarf hún mér sjónum. Ég beið spennt að vita hvað Ása hafði upplifað. Henni var boðið inn í hólinn, en sá ekki þann sem bauð henni. Inn í hólnum var allt í brúnum og mjúkum grænum tónum. Sæti útbúin með mosa og veggir brúnir. Allt hreint, fallegt og í mjúkum jarðarlitum.
Með þessari sýningu vil ég benda á að það er ekki of seint að tengjast álfunum, þeir vilja gleðja okkur og hjálpa. Fróði færði mér þessa gjöf að sjá inn í álfheima og gleður það sannarlega hjarta mitt. Litirnir í álfheimum eru mjúkir jarðarlitir; það eru nýjar fallegar litasamsetningar fyrir mér. Takk allir álfar, þið gleðjið og gefið ekkert nema fegurð og fallegt hjarta.“
Álfheiður útskrifaðist árið 1990 frá MHÍ í grafískri hönnun og hefur málað olíumálverk meira og minna síðan. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í mörgum samsýningum. Málvekin hafa notið vinsælda og farið víða um heim. Álfheiður rekur Gallerý Grástein ásamt 10 öðum myndlistarmönnum. Sýning hennar í salnum stendur til og með 28. febrúar og er eins og galleríið opin alla daga kl. 10-18. Öll velkomin.
https://www.facebook.com/gallerygrasteinn/