top of page

Erla S. Haraldsdóttir: Tæri

508A4884.JPG

fimmtudagur, 20. júní 2024

Erla S. Haraldsdóttir: Tæri

Verið velkomin á sýningaropnun "Tæri" í Neskirkju þann 23. juni kl 12.00.Röð málverka, röð teikninga og veggmynd eru uppistaðan í nýjustu sýningu listakonunnar Erlu S. Haraldsdóttur í Neskirkju.

Myndirnar snúast allar um þemað kynni og eru afleiðing af tengingu listakonunnar við langalangömmu sína og mótandi draum sem hana dreymdi sem barn, þar sem hún hitti huldukonu. Erla hreifst svo af þessari frásögn af fundi ungu konunnar og yfirnáttúrulegu konunnar, sem kemur víða fyrir í íslenskri þjóðtrú, að hún vann röð verka sem byggja á henni, með titlinum „Draumur móður minnar“, sem sýnd voru í Norrtälje Konsthall árið 2022, Gallery Gudmundsdottir árið 2023, og í Listasafni Árnesinga 2024.

Í sýningunni Tæri vinnur listakonan áfram með hugmyndina um kynni, nú í víðara samhengi. Hún skoðar listasögu og goðsagnir heimsins og sýnir málverk af boðun Maríu, Krishna, goðsagnaveru úr hellamálverki Khoisan-fólksins í Suður-Afríku, bænabeiðu, og ref. Þessar gjörólíku verur eiga það sameiginlegt að geta allar verið áþreifanleg birting andans eða sjálfsins. Í japanskri og kínverskri þjóðtrú geta refir breytt sér í yfirnáttúrulegar konur sem draga unga karlmenn á tálar. Engill boðunar Maríu kemur til hennar og segir henni að hún muni fæða Guðssoninn. Khoisan-fólkið stundar leiðsludans þar sem töfralæknar herma eftir og breytast í dýr sem eru nauðsynleg fyrir afkomu ættbálksins.

Erla S. Haraldsdóttir notar málverk, teikningar, prentverk og klippimyndir sem miðil til þess að vinna með menningarleg tákn og finna þeim stað í áleitnum og narratívum myndum. Hún er menntuð í málaralist og með fjölbreyttan bakgrunn í gjörningalist og vídeóverkum, en einbeitir sér nú að fígúratívum málverkum þar sem eðliseiginleikar málningar og lita skapa og brjóta upp rými, ljós og skugga. Hún sækir innblástur í efni og mótív úr listasögunni sem hún setur svo saman af listfengi og kímni. Í verkum sínum fléttar hún oft saman brotum úr persónulegum táknmyndum og menningarlegri arfleifð til þess að kanna samspil fjölskyldubanda, minninga og meðvitundar. Aðferðafræðin er þungamiðja í myndlist Erlu; ferlið er látið stýra verkunum sem lúta oft ýmiss konar reglum og takmörkunum eða eru unnin út frá ákveðnum stöðum eða frásögnum, eða jafnvel fyrirmælum sem aðrir hafa sett henni.

Meðal nýlegra sýninga Erlu má nefna My Mother’s Dream (í Listasafni Árnesinga, Gallery Gudmundsdottir í Berlín, Norrtalje Konsthall í Svíþjóð , Patterns of the Family (í Listasafni Reykjaness), Transformations (í grafhvelfingunni í Dómkirkjunni í Lundi), Genesis (í grafhvelfingunni í Dómkirkjunni í Lundi, Galleri Konstepidemin í Gautaborg og Hallgrímskirkju í Reykjavík), Make a Painting of Trees Growing in a Forest (Kalmar Konstmuseum í Svíþjóð. Verk hennar eru í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Akureyrar og Listasafns ASÍ, sem og hjá Statens konstråd, Göteborgs Kulturnämnd, og Moderna Museet í Svíþjóð. Hún hefur dvalið sem gestalistamaður víða, meðal annars hjá Künstlerhaus Bethanien (Berlín), Cité des Arts (París), The Bag Factory (Jóhannesarborg, Suður-Afríku) og Ateliers ’89 (Oranjestad, Arúba).

Erla stundaði nám við Konunglegu akademíuna í Stokkhólmi og San Francisco Arts Institute, og er með MFA frá Valand-akademíunni í Gautaborg árið 1998. Hún er fædd í Reykjavík og býr og starfar í Berlín og Jóhannesarborg.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page