top of page

Einkasýning Þórdísar Jóhannesdóttur: Millibil

508A4884.JPG

fimmtudagur, 5. september 2024

Einkasýning Þórdísar Jóhannesdóttur: Millibil

Opnun í Listasafni Árnesinga í Hveragerði 14.09 klukkan 15:00

Þrátt fyrir að Þórdís Jóhannesdóttir hafi lengi notað ljósmyndina sem sinn miðil telst hún seint til hefðbundinna ljósmyndara. Ljósmyndir eru grunnurinn sem hún svo brýtur upp á, teygir og togar bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu orðanna. Þórdís sækir myndefni sitt í hversdagsleikann; efnistökin eru form og litafletir sem hún fangar á ferðum sínum, ýmist í myndlist annarra, arkitektúr eða úti í náttúrunni. Myndirnar notar hún svo sem grunn til frekari útfærslu þrívíðra verka. Undirlag myndanna eru krossviður, álplötur eða plexígler sem hafa verið brotnar þannig að þær myndi form sem kallast á við eða endurspegla efnistökin sem birtast í ljósmyndinni. Úr verða fletir sem taka á sig ljós og skugga sýningarrýmisins á mismunandi hátt; verk sem teygja sig útí rýmið og leika á mörkum þess tví- og þrívíða.

Hver man hvað bar hæst þarsíðasta þriðjudag? Hver man hvernig viðraði í vor?

Dagarnir skjóta upp kollinum og stinga svo af án þess skilja eftir sig ummerki, nema þá örsjaldan þegar svo ber undir að tilteknu atviki tekst að klóra far í minnið.

Rista rúnir á innanverða höfuðkúpuna.

Hér gerðist þetta.

Að öllu öðru leyti er tilveran bara eins og hún er. Hversdagsleg. Meginþorra tímans verjum við á eins konar millibili. Á tómu reitunum milli hinna útkrotuðu á dagatalinu.

Og öll mönnum við ýmiss konar millibil, svamlandi einhvers staðar á milli andstæðra póla og teljumst hvorki vitleysingar né snillingar, hvorki smásálir né hetjur, heldur berum einhverja enn óræðari titla sem leynast þarna á milli.

Flestallt fyrirfinnst og á sér stað á millibilinu.

Á sýningunni má sjá verk Þórdísar Jóhannesdóttur sem eru afrakstur viðleitni hennar til að skrásetja millibilið. Og gott betur, því Þórdís hefur teygt millibilsaugnablikin til, magnað þau upp, steypt í ný mót og þar með fært okkur hinum ný og óvænt sjónarhorn á kunnuglegt umhverfi.

Hvað er það sem okkur er gert sýnilegt hér? Er sjálfsögð spurning þegar við fáumst við innihald myndar. Með því að spyrja á þennan hátt gerum við ráð fyrir því að myndin sé stöðug að hún sé nokkurskonar hlutur sem heldur eiginleikum sínum í gegnum tíma og ólík samhengi. Hljóðróf krefur okkur um annars konar spurningar. Með því að leysa upp mörk myndar og efnis, myndar og hljóðs veitir verkið okkur innsýn inn í annarrskonar heim þar sem síbreytilegt yfirboðið er stöðugt og hluturinn er aðeins til í krafti hljóðsins sem umlykur hann.

Sjá nánar á: https://listasafnarnesinga.is/hveragerdi/syningar/millibil/

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page