Diana Chester og Gary Markle sýna í Úthverfu
fimmtudagur, 28. desember 2023
Diana Chester og Gary Markle sýna í Úthverfu
Laugardaginn 2. desember var opnuð sýning á verkum Diana Chester og Gary Markle í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið Vofandi...Drjúpandi...Hlustandi... og stendur til sunnudagsins 14. janúar n.k. Listafólkið dvaldi í gestavinnustofum ArtsIceland við undirbúning og gerð sýningarinnar.
Vofandi...Drjúpandi...Hlustandi...
Listamennirnir Diana Chester og Gary Markle snúa nú aftur til Íslands til að vinna saman að innsetningu sem byggir á og útvíkkar listrannsóknir þeirra sem hófust á mánaðarlangri listamannadvöl hjá ArtsIceland á Ísafirði sumarið 2022.
Diana Chester er bandarískur hljóðlistamaður og kennari með aðsetur í Ástralíu; Gary Markle er kanadískur listamaður og kennari sem býr í Eistlandi og vinnur á sviði ,,þróaðrar“ tísku (expanded fashion). Sameiginlegir snertifletir vinnu þeirra hafa þróast í framhaldi af því að þau dvöldu samtímis við rannsóknir á Vestfjörðum sumarið 2022. Sérstaklega reyndist strandsvæðið, þar sem land og sjór mætast, vera frjósamt rými ímyndunarafls sem snerti þau bæði djúpt. Upphaflegar rannsóknir frá veru þeirra á Íslandi og frekari hugleiðingar sem byggja á reynslunni sem þau urðu fyrir, hafa nú skilað þessu samstarfsverkefni í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space.
Í innsetningunni eru flóknar landslagsupptökur geymdar í grófum handprjónuðum strúktúr sem búinn er til úr garni úr iðnaðarplasti. Þetta framkallar e.k. neðanjarðar-fjöruborð sem blandast saman við frumstætt gufubaðslegt umhverfi sem býður gesti velkomna til að taka þátt, hlusta, finna og dvelja innan þess. Rýmið er til að ígrunda tengsl milli landamæra, takmarkana, heima sem bæði er hægt og ekki hægt að sjá og heyra.