Daglegar örleiðsagnir í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum
fimmtudagur, 20. júlí 2023
Daglegar örleiðsagnir í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum
Listasafn Reykjavíkur býður gestum upp á daglegar örleiðsagnir um sýningar kl. 14.00 bæði í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum. Leiðsagnirnar eru stuttar og laggóðar og tilvalið að slást í hópinn.
Á Kjarvalsstöðum stendur yfir sýningin Kviksjá: Íslensk myndlist á 20. öld þar sem sýnd eru verk eftir marga af okkar fremstu myndlistarmönnum. Mörg verkanna eru vel kunn, en einnig fjölmörg sem sjaldan hafa verið sýnd og munu koma mörgum á óvart. Sýningin er ein af þremur Kviksjársýningum safnsins, sem settar eru upp í tilefni af 50 ára afmæli Kjarvalsstaða sem var vígt árið 1973.
Í Hafnarhúsi standa yfir þrjár sýningar. Fyrst má nefna Kviksjá: Íslensk myndlist á 21. öld þar sem gefur að líta úrval af þeim verkum sem Listasafn Reykjavíkur hefur eignast síðustu tvo áratugi. Það er því einstakt tækifæri til þess að sjá úrval íslenskrar myndlistar frá 20. og 21. öld með þessum tveimur Kviksjársýningum.
Önnur sýning í Hafnarhúsi er Erró: Skörp skæri sem beinir sjónum að umfangsmiklum samklippsverkum listamannins sem hann hefur gefið Listasafni Reykjavíkur frá árinu 1989.
Þriðja sýningin sem var opnuð 15. júní sl. er í D-sal og ber yfirskriftina D48 Dýrfinna Benita Basalan: Langavitleysan – Chronic Pain. Með sýningunni hugsar Dýrfinna Benita til þeirra sem tilheyra jaðarsettum hópum og spyr hvort hægt sé að ná jafnvægi? Hún notar hér sín eigin forréttindi sem myndlistarmaður með vettvang til sýningar í opinberu safni til að fanga raunveruleika sem hefur varla verið sýnilegur í Íslenskri myndlist hingað til.
Daglegar leiðsagnir standa öllum gestum til boða og eru þær mjög fjölbreyttar og gefa skemmtilega innsýn í þær sýningar sem standa yfir í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum. Örleiðsagnirnar hefjast alla daga kl. 14.00 og standa yfir í 15-20 mínútur.