top of page

Dínamískt jafnvægi 

508A4884.JPG

fimmtudagur, 3. júlí 2025

Dínamískt jafnvægi 

Sýning á Þórbergssetri á Hala í Suðursveit. Frá 29. júní 2025 og mun standa fram á vorið 2026.

Myndlistarmenn:
Bryndís Snæbjörnsdóttir
Guðrún Sigurðardóttir
Hye Joung Park
Karin Reichmuth
María Sjöfn
Robo
Sabine A. Fischer

Um sýninguna:
"Í lífkerfum á sér stað stöðugt flæði efna, orku og upplýsinga sem veldur því sem vistfræðingar kalla “dínamískt jafnvægi”, það er flæði innan samfélags tegunda, vistkerfa og líkama sem með tímanum leiða til stöðugleika. Innan þessa jafnvægis, þá valda ófyrirsjáanleg samskipti breyttum og nýstárlegum hegðunarmynstrum sem geta á ófyrirsjáanlegan hátt haft áhrif á feril kerfisins. "

Myndlistarmennirnir vinna að verkum sem tengjast hugmyndafræðinni um „dínamískt jafnvægi“ þar sem horft er til mismunandi kerfa, hvort sem fundin eru í náttúrunni, efnum eða félagslegum fyrirbærum. Með skoðun á mismunandi kerfum og getu þeirra til sjálfsendurnýjunar og þróunar muna þeir leitast við að varpa ljósi á umbreytingamátt þeirra til að fanga og velta fram nýjum hugmyndum.

Sönglínur norðursins (1998) er verk eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur sem hún vann áður en hún hóf að vinna alfarið að list sinni með eiginmanni sínum og listamanninum Mark Wilson. Verkið er byggt á æskuminningum hennar þegar hún þurfti að brynja sig til að geta heimsótt ömmu sína en til að komast þangað þurfti að labba í gegnum varpsvæði kríjunnar. Verkið er innsetning sem kannar átök í samspili lífvera og veltir upp spurningum um eignarrétt landsvæðis og umhverfis.

Guðrún Sigurðardóttir nýtir sér hugmyndafræðina um kerfi með því að innleiða reglur i vinnu sinni sem hafa áhrif á niðurstöðuna. Verkin eru í eðli sínu kerfisbundin og byggja á endurtekningunni sem er undirstaða kerfa.

Hye hefur djúpan áhuga á því hvernig innri virkni náttúrunnar og ferli hennar til að myndast getur verið endurskapað í listsköpun, þar sem það getur virkjað skyntilfinningu (e. felt sense) okkar til að tengjast öðrum manneskjum og öðrum-ekki-manneskjum. Í verkinu sem Hye mun sýna á Hala skoðar hún hvernig rýmis- og tímaskynjun nútímamanna er sundurliðuð vegna fjarlægðar  en á sama tíma samtvinnuð og tengd.

Karin Reichmuth hefur alltaf dregist að breytilegu umhverfi þar sem spenna skapast í mótsögn við upphaflegt ástand. Þessi dýnamík ögrar föstum gildum og sjónarhornum. Í verkum sínum leitast hún við að fanga hina hverfulu töfra þessara augnablika og umbreyta innblæstri og þekkingu í sjónræn minni. Þessi minni verða síðan að efnislegum skúlptúrum eða innsetningum sem víkka út rýmið. Hún hefur áhuga á eðlisfræðilegum lögmálum, frumstæðu orkuástandi og fíngerðum titringi rýmis í hversdagslegri upplifun. Þessi vegferð býður uppá að ígrunda samhljóm, sem birtist sem sjálf tjáning listrænnar könnunar.

María Sjöfn fjallar um fjölþætta skynjun umhverfisins með innsýn í innra og ytra samhengi rýmis og efnis. Í verkinu “Bergur” er hún að skoða berghringrásarkerfin sem lýsir ferli þar sem berg molnar, flyst, ummyndast og endurnýjast í sífelldri hringrás. Í þessu ferli getur stórt fjall smám saman molnað niður í smærri steina, möl og að lokum í sandkorn, sem svo geta aftur ummyndast og orðið hluti af nýju bergi með tíð og tíma.

Robo vann til margra ára að því að nálgast manneskjur á gagnrýnin og kaldhæðinn hátt, með framsetningu sem sveiflast á milli hins groddalega og súrrealíska í poppstíl. Í framhaldi fór Robo að velta fyrir sér stöðu samtímalistar í samhengi vélvæðingar, stafrænnar miðlunar og endurframleiðslu verka. Einstakur og óendurtekinn gjörningur, í tengslum við pareidólíu (sjónræna blekkingu þar sem tilviljanakennd form virðast mynda kunnugleg mynstur), er grunnurinn að rannsókn og gagnrýni í nýlegum verkum hans. Í skýrri andstöðu við gervigreind, lifna við sjálfsprottnar og ómeðvitaðar hreyfingar sem mynda landslag og samsetningar sem eru algjörlega huglægar í upplifun, en þó kunnuglegar. Ferli niðurbrots og útþenslu á efninu skapar bæði abstrakt og fígúratífar leifar, ólæsilegar fyrir vél en fullar af túlkunarmöguleikum á mörkum hins óhlutbundna og myndræna. Ég er ekki vél.

Sabine A. Fischer notar aðferðafræði til að breyta kunnuglegum kerfum sem eru djúpt rótgróin í samfélagi okkar, svo sem fjölskyldukerfum, menntakerfum eða sjálfsögðum hegðunarmynstrum í neyslusamfélaginu. Þrívíð verk hennar brjóta upp þessar byggingar og skapa léttleika sem mótvægi við innbyggðar mótsagnir.

Þórbergur Þórðarson (1888–1974) var íslenskur rithöfundur, þekktur fyrir frumlegan stíl, kaldhæðni og gagnrýna hugsun. Hann var einnig áhugamaður um esperantó og skrifaði um ýmis efni, þar á meðal þjóðtrú, dulspeki og vakti mikla athygli fyrir beinskeytta samfélagsrýni í skrifum sínum. Þórbergur var þekktur fyrir að blanda saman húmor, kaldhæðni og heimspekilegum vangaveltum í verkum sínum, sem höfðu mikil áhrif á íslenskar bókmenntir.

Þessi einstaka nálgun Þórbergs á líf og list hefur veitt innblástur í verk myndlistarmannanna. Þeir leitast við að miðla anda hans til samfélagsins með verkum sínum, sem endurspegla frumleika, gagnrýni og víðsýni, líkt og Þórbergur gerði á sínum tíma.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page