Creative Responses / Viðbragð

fimmtudagur, 8. maí 2025
Creative Responses / Viðbragð
Samsýningin Creative Responses / Viðbragð opnar í SPECTA galleríi í Kaupmannahöfn þann 16. maí klukkan 17:00.
Sýningin hverfist um skapandi viðbrögð við loftslagskreppunni og endurspeglar samspil hins svæðisbundna og hnattræna í umhverfislist og aktívisma. Sóttur er innblástur í greinasafnið Creative Responses to Environmental Crises in Nordic Art and Literature (2025). Þar varpa norrænir vistrýnar og listamenn ljósi á flókið og mikilvægt hlutverk listar, bókmennta og annarra skapandi athafna þegar tekist er á við breytta heimsmynd. Sýnd verða verk eftir listafólk sem fjallað er um í bókinni og aðra sem tengja við meginþemu hennar: samtengingar, flókin kerfi, gildi fjölbreytileika og afbyggingu stigvelda.
Alls taka 13 listamenn þátt. Átta þeirra eru frá Íslandi, en aðrir frá Danmörku, Grænlandi og Bandaríkjunum.
Listamenn: angela Snæfellsjökuls rawlings, Aurora Robson, Bolatta Silis-Høegh, Camilla Thorup, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristinn Már Pálmason, Laura Ortman, Peter Holst Henckel, Sigga Björg Sigurðardóttir, Sigrún Inga Hrólfsdóttir, Þórdís Aðalsteinsdóttir
Sýningarstjórar: Auður Aðalsteinsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir
Í tengslum við sýninguna verður opið málþing í Kaupmannahafnarháskóla þann 15. maí klukkan 13.00-17.00. Þar munu fræðimenn, skáld og listafólk beina athygli að umhverfislist og öðrum skapandi viðbrögðum við vistkreppum samtímans.
Til máls munu taka: Auður Aðalsteinsdóttir, frá Háskóla Íslands, Katarina Leppänen, Gautaborgarháskóla, angela Snæfellsjökuls rawlings, Listaháskóla Íslands, Torsten Bøgh Thomsen, Háskólanum í Suður-Danmörku,Michael Kjær, Kaupmannahafnarháskóla, Sigrún Alba Sigurðardóttir, Háskóla Íslands, Kim Simonsen, ReykjavíkurAkademíunni, Haukur Ingvarsson, Háskóla Íslands, Anders Ehlers Dam, Europa-Universität Flensburg,Ole Martin Sandberg, Háskóla Íslands, Dehlia Hannah, Kaupmannahafnarháskóla, Sigrún Inga Hrólfsdóttir, listamaður og listrannsakandi og Ana Stanićević, Háskólanum í Helsinki.
Málþingið fer fram á ensku og verður haldið í Multisalen, í húsnæði háskólans við Karen Blixens Vej 1. Öll áhugasöm eru velkomin.
Sýningin er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit, Specta gallerís í Kaupmannahöfn og Listasafnsins á Akureyri. Seinni hluti hennar opnar í Ketilhúsi Listasafnsins á Akureyri 27.nóvember 2025 og gengur þá Björg Eiríksdóttir til liðs við hópinn. Einnig verður haldið málþing í tengslum við þá sýningu.
Verkefnið Creative Responses er styrkt af Nordisk kulturfond og Uppbyggingarsjóði SSNA. Listamenn fengu jafnframt ferðastyrk frá Myndlistarmiðstöð.