Christopher Taylor - Nálægð / Presence
fimmtudagur, 12. janúar 2023
Christopher Taylor - Nálægð / Presence
Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður þér að vera við opnun sýningarinnar Christopher Taylor – Nálægð / Presence 14.01.2023 – 23.04.2023 laugardaginn 14. janúar kl. 15 í Ljósmyndasafni Reykjavíkur.
Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri, opnar sýninguna, Léttar veitingar í boði. Sýningarspjall með ljósmyndaranum sunnudaginn 15. janúar kl. 14.
Sýningin Nálægð samanstendur af þremur ljósmyndaröðum sem spanna 25 ára tímabil og varpa í sameiningu ólíku ljósi á hugtakið nálægð í íslensku samhengi.
„Ég hef komið reglulega til Íslands allt frá árinu 1983, þegar við Álfheiður giftumst. Í þessum heimsóknum hef ég oft dvalist hjá fjölskyldu hennar í heimahúsum ýmist í Reykjavík eða Eyjafirði. Álfheiður flutti frá Íslandi sem barn eftir skilnað foreldra sinna og hugsar oft með ljúfsárum söknuði til þessara litlu atriða í heimilislífinu sem við minnumst öll með hlýju. Þegar ég sat við eldhúsglugga tengdamömmu og virti fyrir mér birtubrigðin opnaðist þessi heimur líka upp fyrir mér. Ég byrjaði að taka ljósmyndir innandyra án fólks, til að fanga þessar hverfulu tilfinningar.
Ég tók líka portrettmyndir, sem eru sumar hverjar af íbúum þessara híbýla, aðallega fjölskyldumeðlimum eða vinum sem ég hef myndað á því árabili sem ég hef heimsótt Ísland. Einnig eru myndir af bændum – fólkinu sem býr í hvað mestri nánd við landið – í Þistilfirði þaðan sem Álfheiður er ættuð í föðurætt, svæði sem ég er farinn að upplifa sem heimahaga.
Svo eru portrett af steinum. Þegar tækifæri gefst nýt ég þess að fara í langar gönguferðir og kanna nýjar slóðir, stundum undir því skyni að feta í fótspor forfeðra og -mæðra Álfheiðar. Grjót og vatn eru ráðandi þættir í umhverfinu á þessum leiðöngrum mínum. Þegar maður er einn í landslaginu beinist skynjunin að hverju atriði sem sker sig úr. Þessi atriði taka á sig merkingu sem verður minnisstæð. Sum þeirra geymast í minni sem nöfn, sem er annað form nálægðar.“
Christopher Taylor