Bragðarefur með sniglaskeljum í Gallerí Gróttu

miðvikudagur, 15. nóvember 2023
Bragðarefur með sniglaskeljum í Gallerí Gróttu
Fimmtudaginn 16. nóvember kl. 17 opnar Valgerður Ýr Walderhaug myndlistarkona sýningu sína Bragðarefur með sniglaskeljum í Gallerí Gróttu.
Valgerður var í meistaranámi við myndlistardeild Listaháskólans í Þrándheimi árin 2019-2021 og í bakkalárnámi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands árin 2014-2017. Eftir útskrift hefur hún hlotið bæði starfslaun og verkefnastyrki í Noregi þar sem hún er búsett. Valgerður hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis
Á sýningunni Bragðarefur með sniglaskeljum má sjá verk á mörkum málverks og skúlptúrs.
Valgerður hefur áhuga á eiginleikum málverksins og leitast við að kanna efni þess, uppbyggingu, áþreifanleika og nærveru. Hún vinnur með fjöldaframleidda og fundna hluti úr nærumhverfi sínu sem hún umbreytir með malerískum aðferðum svo úr verða flóknar innsetningar þar sem litir gegna mikilvægu hlutverki.