Brúna tímabilið: Ragnar Kjartansson

fimmtudagur, 16. janúar 2025
Brúna tímabilið: Ragnar Kjartansson
Opnun: Laugardaginn 18. janúar frá 16 - 18.
i8 Grandi, Marshallhúsið, Reykjavík
Sýning Ragnars Kjartanssonar Brúna tímabilið opnar í i8 Granda 18. janúar og stendur til 18. desember 2025. Í sýningarrýmunum tveimur sýnir listamaðurinn ný verk í bland við eldri. Sýningin er sjötta einkasýning Ragnars í i8.
Brúna tímabilið er árslöng sýning þar sem fikt og tilraunamennska ráða ríkjum. i8 Grandi er einungis spölkorn frá vinnustofu Ragnars og mun hann því nýta salina sem afkima vinnustofunnar, tilraunaeldhúskrók. Verkum verður skipt út nokkuð oft og mun sýningin því verða síbreytileg þetta ár sem hún stendur. Brúna tímabilið spannar ár af leik með nýtt dót og gamalt dót, sem ekki er tengt saman af ákveðinni hugmyndafræði.
Brúna tímabilið hefst á frumsýningu myndbandsverksins A Boy and a Girl and a Bush and a Bird (2025) sem tekið var upp í bananahúsi Garðyrkjuskólans á Reykjum. Þegar það var byggt, árið 1951, var það stolt og prýði íslensku þjóðarinnar sem var nýverið laus undan Dönum og harðákveðin í því að breyta harkalegri náttúrunni í ávexti og sundlaugar. Sagan segir að á áttræðisafmæli Winston Churchill hafi vinaþjóðir sent heiðursmanninum helsta góðgætið frá sínu landi sem veisluföng. Ríkisstjórn Íslands sendi banana úr þessu gróðurhúsi í eftirréttinn. Svona var nýja ímynd Íslands. Bananar.
A Boy and a Girl and a Bush and a Bird vann Ragnar í samvinnu við Davíð Þór Jónsson og Anne Carson. Tveir menn leika lítinn ópus á bananaplantekru á köldum vetrardegi á Suðurlandi. Ragnar og Davíð Þór flytja verkið og sömdu jafnframt tónlistina, við texta sem kemur úr bréfi frá Anne Carson – fjögur möguleg viðlög, eins og skáldið orðar það. Brot úr textum úr gjörólíkum áttum, allt frá Kafka til jarðarfarasöngva frá Yoruba.
Before now I have been
A boy and a girl and a bush and a bird
And languageless fish in the sea
(Empedókles, í enskri þýðingu)
Brúna tímabilið hefst á frumsýningu verksins A Boy and a Girl and a Bush and a Bird (2025) sem Ragnar vann í samvinnu við Davíð Þór Jónsson og Anne Carson. Tveir menn leika lítinn ópus á bananaplantekru í gróðurhúsi Garðyrkjuskólans á Reykjum. Þegar það var byggt, árið 1950, var það stolt og prýði íslensku þjóðarinnar sem var nýverið laus undan Dönum og harðákveðin í því að breyta harkalegri náttúrunni í ávexti og sundlaugar.
Sýningar í i8 Granda standa mun lengur en vaninn er hjá söfnum og galleríum og eru helgaðar hugmyndum um tíma og rúm. Hinn langi sýningartími skapar rúm fyrir listamennina til að íhuga hvernig tíminn mótar verk þeirra og flæðið hvetur áhorfendur til að heimsækja breytilegar innsetningarnar aftur og aftur. Brúna tímabilið er fjórða heilsárssýningin í i8 Granda og kemur á eftir sýningum Andreas Eriksson árið 2024, B. Ingrid Olson árið 2023 og Alicja Kwade árið 2022.