top of page

BERG Contemporary: Neuromancer - Þórdís Erla Zoëga

508A4884.JPG

föstudagur, 14. október 2022

BERG Contemporary: Neuromancer - Þórdís Erla Zoëga

Einkasýning Þórdísar Erlu Zoëga í BERG Contemporary, sem ber titilinn Spaced Out og opnar klukkan 17 þann 14. október.

Um er að ræða hennar fyrstu sýningu í galleríinu, en sýningin stendur til og með 26. nóvember.



Í vísindaskáldsögunni Neuromancer frá árinu 1984, má finna þá fullyrðingu að framtíðin
sé hér nú þegar, henni sé bara ekki mjög jafnlega dreift. Í téðri skáldsögu kemur
hugtakið netheimur (e. cyberspace) einnig fram í fyrsta sinn, sem jafnvel mætti lýsa sem
félagslega samþykktri ímyndun fólks á fyrirbæri sem það getur ekki snert, rými sem að
það hefur ekki getað gengið inn í fyrr en nú (til dæmis með tilkomu metaverse), og á
um margt sér ýmsar hliðstæður í verkum Þórdísar Erlu Zoëga. Á sýningu hennar í BERG
Contemporary er að finna þrívíð ljósaverk, fræstar lágmyndir, rafknúna skúlptúra, leik að
samsetningum og endurvarpi, allt eins konar efnislega endurspeglun á óáþreifanlegri
veröld sem við dveljum í á hverjum degi, án þess að okkur kunni að þykja það nokkuð
tiltökumál.
Í titilverki sýningarinnar, Spaced Out, bregst rafknúinn broskall við hreyfingum
gesta. Með hjálp vélræns arms verður brosið til, aftur og aftur, og undirstrikar þannig
síendurtekna tilhneigingu okkar til að tjá flóknar tilfinningar með einföldu lyndistákni,
sem getur í senn táknað einlæga gleði og hæglætis ofríki (e. passive aggression), allt
eftir því hver notandinn er og af hvaða kynslóð hann kann að tilheyra. Í skrifuðu máli,
svo sem tölvupóstum, eiga tilfinningaleg blæbrigði samskipta auðvelt með að skolast
til, og vert að minnast þess að myndlestur tákna er háður reynsluheimi hverrar
manneskju fyrir sig, líkt og listrýnirinn John Berger hefur bent svo réttilega á í skrifum
sínum. Hvernig við táknum okkur sjálf í raunveruleikanum andspænis netheimum verður
sífellt margslungnara, þar sem ný tækifæri gefast til að kanna eigin fjölbreytileika. Í
netheimum erum við svipt lykt, bragði, snertingu og heyrn, svo úr verður gjörningur
sem byggist frekar á vandlegri ígrundun, þar sem framsetningin á okkur sjálfum byggist
jafnvel frekar á að setja fram réttu ljósmyndina, eða skoðunina. Við reynum að stjórna
því sem aðrir sjá, og um leið og leiðirnar til þess að tengjast hvoru öðru verða
fjölbreyttari, gefur ekki endilega svo að skilja að við séum tengdari hvoru öðru en áður,
eða hvað?
Í verkinu On the grid gefst gestum sýningarinnar tækifæri til að spegla sig í hvor
öðrum, og sameina þannig ásýnd sína í gegnum glerskúlptúr sem virkar jafn speglandi
og endurvarpandi í senn. Verkið ber óhjákvæmlega með sér skírskotanir í stóra bróður,
söguna af Narcisussi, og algrímskar auglýsingar, en í lágmyndum Þórdísar Erlu má þar
að auki sjá áðurnefndan broskall skjóta upp kolli á síendurtekin hátt. Smágert tákn sem
var upprunalega hannað fyrir líftryggingafélag í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu
aldar, sem eins konar velvildar og vináttutákn í kapítalískum tilgangi. Til þess að
áhorfendur megi svo spegla sig í hvor öðrum er nauðsynlegt að stíga inn í hnitalínurit,
eitt megineinkenna verka Þórdísar, sem byggjast oftar en ekki á samhverfu og
formfegurð. Formgerð og titill verksins On the grid vísar að jöfnu til sólfangara sem og
frum-framsetningar netheima, þar sem grafísk endurvörpun upplýsingabanka er
alltumlykjandi í skipulögðu ímynduðu rými. Svokallaður off the grid lífsstíll á svo líklega
hvergi meira erindi við jarðbúa en einmitt nú, í ljósi yfirvofandi loftslagsvár, betra
aðgengis að sólföngurum til einkanota og þrá fólks eftir fjölbreytilegri lifnaðarháttum,
laust undan oki erlendra orkufyrirtækja. Hugtakið off the grid er þar að auki oft notað
yfir þá sem kjósa að dvelja sem hálfgerðir útlagar samfélags okkar, án þess að hægt sé
að rekja slóðir þeirra og standa fyrir utan hefðbundin kapítalísk gildi. Í netheimum, On
the grid, er allt rekjanlegt, og jafnvel net-tröll neyðast til að horfast í augu við eldri eigin
skoðanir að lokum. Má af þessu leiða til lykta að framtíð okkar on the grid sé mun víðar
dreift og í fastari skorðum en við höfðum upprunalega gert ráð fyrir.
Í innsta rými sýningarinnar má svo líta sjónræna könnun Þórdísar Erlu á okkar
eigin tilvist í tengslum við náttúruna á stafrænni öld, þar sem prentuðum verkum úr
sandblásnu plexigleri hefur verið raðað í ýmsar samsetningar. Litbrigði verkanna eiga
uppruna sinn í bjöguðum lagermyndum (e. stock photos) af internetinu, þar sem
handhægara getur reynst að sækja fegurð náttúrufyrirbæra í hafsjó frírra ljósmynda,
frekar en að reyna að fanga hana með eigin leiðum. Í gegnum endurvarp, einfaldar
formgerðir og hálfgegnsæi verkanna varpar Þórdís Erla skýru ljósi á fyrirbæri sem er
mun stærra en við sjálf, og mætti jafnvel lýsa sem stikluhlutum (e. hyperobjects). Slík
fyrirbæri eiga sér stað í svo yfirgripsmiklum tíma og rúmi að það reynist manneskju erfitt
að henda reiður á, og mætti líkja við upplifun okkar af loftlagsvá. Við getum lesið í
tölulegar upplýsingar um fyrirbærið, skoðað myndir af bráðnandi ísjökum og jafnvel
fullkomlega mynduð náttúrufyrirbæri á tölvuskjá. En með þessu erum við meðvituð um
að með stafrænni notkun okkar erum við erum að eiga hlutdeild í einhverju mun stærra
en við sjálf.
Þórdís Erla Zoëga (1988) lauk námi við Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið
2012. Hún hefur sýnt verk í Kaupmannahöfn, Amsterdam, Stokkhólmi, Berlín, Basel,
Tékklandi og víðar. Hér á landi hefur hún unnið verk fyrir Listahátíð í Reykjavík, Listasafn
Árnesinga, Listasafn Akureyrar, Gerðarsafn, Íslenska dansflokkinn og Listasafn
Reykjavíkur, auk þess sem hún bæjarlistamaður Seltjarnarnesbæjar 2022. Þetta er
hennar fyrsta einkasýning í BERG Contemporary.
Texti:
Kristína Aðalsteinsdóttir

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page