BERG Contemporary: Líking / Analogy - Jóna Hlíf Halldórsdóttir
fimmtudagur, 18. ágúst 2022
BERG Contemporary: Líking / Analogy - Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Líking / Analogy
19.08.-01.10. 2022
Opnun þann 19. ágúst, kl. 17-19.
Verið velkomin.
_________
Jóna Hlíf semur bil – millibil? – hún kemur auga á bil sem fyrir eru og þekkt í menningum; hún uppgötvar áður óþekkt, einsog landnemi; hún býr til ný og óvæntar tengingar. Hún leikur að almennum heimsmyndum og sögutíma, brýtur upp söguna, – þíðir – fortíðir úr frysti, frystum. Merking er fyrirbæri sem breytist, dreifist og stökkbreytist. Jóna Hlíf áminnir, hún dregur verðmæti úr ösku: ekki gleyma hvaðan þú kemur, heyrist mér ekkóa. Hún setur saman líka og ólíka tíma, líka og ólíka staði, lík og ólík orð og upplýsir þarmeð stórkostleg bil sem lifa og titra milli skynjunar og hugsunar. Stundum brúar hún bilin, til dæmis með lit og með litnum eykur hún líka og róar bilið sem myndast í huga áhorfanda – á þessari lokasýningu þríleiks: Hinn fjólubláa lit. Um leið skynjar áhorfandinn tíbrá inní tíbrá
inní tíbrá. Og tíbrá titrar fegurð. Það kallast töfrar.
Athugasemd vegna orðsins töfrar:
Lokkun eða löðun eða aðdráttarafl listar er af öðrum meiði en lokkun, löðun, aðdráttarafl, lórilei draumaverksmiðju. List platar mig ekki til að kaupa mér farmiða á eyðieyju. List tekur mig útfyrir efnið og hún rekur mig útfyrir efnið. Efnið er efniviður hennar: miðillinn. Jóna Hlíf notar á þriðju sýningunni sem heitir Líking / Analogy – fyrsta sýningin í röðinni heitir: More Than a Thousand Words, og blár var litur hennar, sú númer tvö heitir: Cottongrass Flames, gulur liturinn – hún notar hér ljósmyndir, orð, regnbogapappír, strá, tré, línur, og auðvitað fjólubláan lit og [auk bilanna] efni sem augað tæki annars ekki eftir; sýningin skírir það best út sjálf: hvað ég aldrei sá. Áhrifin sem ég verð fyrir við að skoða verk Jónu Hlífar: það er líkast því sem hugsun mín gárist, það titrar á milli hugsanakerfa heilabúsins.
-Brot úr sýningartexta Kristínar Ómarsdóttur, í samtali við Jónu Hlíf Halldórsdóttur