Becky Forsythe valin í rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur
fimmtudagur, 18. janúar 2024
Becky Forsythe valin í rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur
Becky E. Forsyte hefur verið valin til að gegna rannsóknarstöðu innan Listasafns Reykjavíkur sem hefur það markmið að rannsaka hlut kvenna í íslenskri listasögu. Alls bárust átta áhugaverðar umsóknir um rannsóknarstöðuna sem var auglýst síðasta vetur. Verkefnið er unnið í samstarfi við listfræði í Háskóla Íslands og nýtur öndvegisstyrkjar Safnaráðs til þriggja ára. Styrkurinn var fyrst veittur árið 2022 þegar Sigrún Inga Hrólfsdóttir var valin til að rannsaka listferil Hildar Hákonardóttur og aftur 2023 þegar Aðalheiður Guðmundsdóttir fékk stöðuna og rannsakar nú list Borghildar Óskarsdóttur. Er þetta því í þriðja og síðasta sinn sem staðan var auglýst, en sérstakt fagráð skipað fulltrúum safnsins og Háskóla Íslands hefur að vanda valið úr innsendum tillögum.
Tillaga Beckyar um rannsókn og sýningu ber heitið „Listakonur sem ryðja sína eigin braut“ þar sem hún hyggst beina sjónum sínum að listakonum og hópum listakvenna sem voru mótandi hreyfiafl í íslensku listalífi á síðari hluta 20. aldar. Listakonur sem vinna í ólík efni og þvert á miðla um leið og þær eru ómissandi þátttakendur í íslensku myndlistarlífi, ekki síst þegar kemur að því að móta sína eigin sögu.
Rannsókninni lýkur að vanda með sýningu á Kjarvalsstöðum í byrjun árs 2025 auk útgáfu veglegar bókar.
Becky Elizabeth Forsythe er sýningarstjóri, ritstjóri, textahöfundur og rannsakandi sem hefur sinnt fjölbreyttum störfum á sviði myndlistar hér á landi. Hún lauk BFA-gráðu í myndlist frá York-háskóla í Toronto árið 2007 og stundaði svo framhaldsnám í safnafræðum og sýningarstjórn við Ontario College of Art and Design-háskóla og Georgian College í Ontario þaðan sem hún útskrifaðist árið 2014. Becky hefur sýningarstýrt nokkrum fjölda sýninga og unnið að öðrum verkefnum, rannsóknum og útgáfum í söfnum, galleríum og listamannareknum rýmum. Hún hefur sinnt tímabundnum verkefnum hjá Listasafni Reykjavíkur og hefur sinnt hlutverki leiðbeinanda í meistaranámi myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Hún er einnig í ritstjórnarteymi tímaritsins Myndlist á Íslandi. Frá 2014-2018 gegndi Becky stöðu safneignarfulltrúa Nýlistasafnsins í Reykjavík.