top of page

Bændasamtökin gefa Listasafni Reykjavíkur veglegt vefnaðarlistaverk eftir Hildi Hákonardóttur

508A4884.JPG

fimmtudagur, 12. janúar 2023

Bændasamtökin gefa Listasafni Reykjavíkur veglegt vefnaðarlistaverk eftir Hildi Hákonardóttur

Bændasamtökin hafa ákveðið að færa Listasafni Reykjavíkur vefnaðarverk Hildar Hákonardóttur, Árshringinn, að gjöf. Verkið er eitt af stærstu verkum listakonunnar og verður á meðal þeirra fjölmörgu listaverka sem sýnd verða á umfangsmikilli yfirlitssýningu á verkum Hildar sem opnuð verður á Kjarvalsstöðum þann 14. janúar næstkomandi.

Sýningin ber yfirskriftina Rauður þráður og er afrakstur rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur sem ætlað er að endurskoða hlut kvenna í íslenskri listasögu.

Bændasamtökin keyptu verkið af listakonunni árið 1984 og hékk það lengi á Hótel Sögu. Upphaflega var verkið í tólf hlutum sem hvert og eitt táknuðu mánuðina í árinu og gróður jarðar árið um kring.

Verkið hefur nú lengi verið í geymslu en sýnt opinberlega á nokkrum sýningum meðal annars í Kaupmannahöfn árið 2018. Þegar eigendaskipti urðu á húsinu nýverið fundust aðeins tíu hlutar verksins og verða þeir færðir Listasafni Reykjavíkur til varanlegrar varðveislu. Um afdrif hinna tveggja hluta er ekki vitað og fagnar Listasafn Reykjavíkur upplýsingum sem menn kunna að hafa um afdrif þeirra.

Hildur Hákonardóttir segir um Árshringinn, sem jafnframt gengur undir nafninu Himinn og jörð, en hún hófst handa við verkið á vorjafndægrum. ,,Í hverjum mánuði í heilt ár óf ég teppi, sem lýsir mótum himins og jarðar, hinum síbreytilegu litum veðrabrigða, birtu og árstíða.“

Það er framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, Vigdís Häsler, sem afhendir Ólöfu K. Sigurðardóttur safnstjóra Listasafns Reykjavíkur verkið til eignar og varðveislu.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page