top of page

Artak105 Gallery: Allt í hnút - Elín Anna Þórisdóttir

508A4884.JPG

föstudagur, 14. október 2022

Artak105 Gallery: Allt í hnút - Elín Anna Þórisdóttir

Elín Anna þórisdóttir opnar sýninguna "Allt í hnút" í Artak105 Gallery

Elín Anna Þórisdóttir útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2004, hún bætti við sig MA.art.ed gráðu árið 2018 og hefur einnig lokið diplómu í keramik við Myndlistaskólann í Reykjavík, 2016. Hún vinnur þvert á miðla og kannar mörk þeirra með kímnina að vopni. Í verkum hennar leikur sköpunarferlið sjálft stórt hlutverk, hún notar næmni og tilfinningu til að skapa tilraunakennt myndmál, lita, forma og áferða sem lýtur eigin lögmálum.

„Efnið og litirnir toga í mig, svo kallar form á nýtt form og litur kallar á næsta lit - eins og boðhlaup á blaði“
- Elín Anna

Á sýningunni Allt í hnút kannar Elín veruleika hluta og samband okkar við þá. Hún notar þetta myndmál til að setja eiginleika þeirra í nýtt samhengi sem fær áhorfandann til að velta fyrir sér hvernig við skynjum umhverfi okkar. Í þessu samhengi fá hugmyndir eins og jafnvægi, spenna, áferð og vídd ný hlutverk. Í leik sem varpar meðal annars ljósi á tvíþætt eðli hluta, annars vegar sem efnislegur veruleiki án merkingar og hins vegar sem gildishlaðin skynjun.

Á sýningunni verka hnútar sem mót þessara tveggja veruleika, hnútar eru raunar ekki annað en samanspil spennu og áferðar en eru þó afar gildishlaðnir í mannlegu samfélagi. Með því að setja hnútana á flatan flöt með óræðum hætti sviptir listamaðurinn þá nytsamlegu gildi sínu og beinir athyglinni að efnislegum eiginleikum þeirra.

Í heimi þar sem gildishlaðin þekking streymir til okkar úr öllum áttum, er nauðsynlegt að gefa huganum svigrúm til að staldra við og njóta, að búa til rými fyrir skynjunina og fegurðina. Flæði og leikur fara með lykilhlutverk í sýningunni sem gerir tilraun til að frelsa skynjunina undan gildismati og nálgast hluti á öðrum forsendum. Til þess setur listamaðurinn eðlisfræðilögmál í leikrænan búning og efnislega eiginleika hluta í nýtt samhengi.
Odda Júlía Snorradóttir, textahöfundur og sýningarstjóri.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page