top of page

ARCTIC CREATURES - sýning á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn

508A4884.JPG

þriðjudagur, 6. júní 2023

ARCTIC CREATURES - sýning á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn

Hrafnkell Sigurðsson, Óskar Jónasson & Stefán Jónsson opna ljósmyndasýningu á Norðurbryggju, Kaupmannahöfn, 10. júní – 10. september 2023

Verið velkomin á Arctic Creatures: sýningu listamannahóps sem með krafti, kímnigáfu og innsæi setur málefni líkt og samband manneskjunnar við náttúruna, karlmennsku og plastmengun í brennidepil með sviðsettum ljósmyndum og skúlptúrum.

Listamannahópurinn samanstendur af þeim Hrafnkeli Sigurðssyni, Óskari Jónassyni og Stefáni Jónssyni en þeir eru æskuvinir með sameiginlegar rætur aftur í pönktímabilið í Reykjavík á áttunda áratugnum. Fyrir 10 árum síðan fóru þeir að hittast til að ganga á fjöll og firnindi, þá orðnir miðaldra karlmenn með öruggan feril hver á sínu sviði í listaheiminum. Þeir komust þó fljótt að því að þeir voru ekki bara að hitta hvorn annan og njóta íslenskrar náttúru, heldur voru þeir líka stöðugt að komast í kynni við rusl á víð og dreifð um öræfin. Bráðlega fóru þessir hittingar að snúast um eitthvað annað en að ganga – þeir sameinuðu krafta sína og byrjuðu að stilla sjálfum sér upp úti í náttúrunni og taka myndir.

Listamennirnir þrír eru miðpunktur verkanna og eru senurnar allt í senn hlægilegar og sorglegar. Listin mótast af því sem rekur á fjörur þeirra en þeir nýta allt frá netadræsum til þangs. Listamennirnir klæðast einungis því nauðsynlegasta og stilla sjálfum sér upp sem þjóðsagnakenndum persónum og á stundum getur áhorfandinn séð skýr tengsl við þekktari listaverk sögunnar.

Verkin eru einnig innlegg í umræðuna um hvað við leggjum í hugtakið karlmennsku og hvernig hún tengist oftar en ekki hugmyndum um leiðangra – ekki síst hér í norðrinu – og það að fara yfir sín eigin mörk í samvistum við náttúruna. Verkin eru gáfuleg, leikræn og sprenghlægileg kveðja, sem samtímis er meðvituð um náttúruváina sem við búum við, og ber með sér hvernig manneskjan sleppur aldrei frá sínum eigin hugmyndum og, ekki síst, eigin óþverra.

Um listamennina:
Á bakvið Arctic Creatures standa listamennirnir Hrafnkell Sigurðsson myndlistamaður, Óskar Jónasson kvikmyndaleikstjóri og Stefán Jónsson leikari og leikstjóri. Frá því árið 2012 hafa þeir unnið saman að gerð ljósmynda sem eru teknar í öræfum Íslands.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page