Anton Logi Ólafsson opnar sýninguna Brennuöld í SÍM Salnum
fimmtudagur, 23. nóvember 2023
Anton Logi Ólafsson opnar sýninguna Brennuöld í SÍM Salnum
Anton Logi Ólafsson opnar málverkasýninguna Brennuöld í SÍM salnum í desember. Sýningaropnun föstudaginn 1. desember frá 16-18.
Brennuöld er sería listaverka unnin út frá galdrafári 17. aldar á Íslandi. Í verkunum eru lausar sagnfræðilegar tengingar í bland við hráar tilfinningar.Tilurð seríunnar var ekki sagnfræðilegs eðlis heldur spratt hún upp úr tilfinningum listamannsins: sorg og réttlátri reiði.
Ég hef persónulega tengingu við Brennuöld. Amma mín, Ólöf Marín Einarsdóttir heitin, sagði okkur söguna af einu mæðginum Íslandssögunnar sem brennd voru saman á báli fyrir galdur, og að við værum skyldmenni þessara meintu norna. Hún lést í janúar árið 2020. Árið 2021 tóku ég og 125 aðrir listamenn þátt í samsýningunni Nr. 4 Umhverfing. Listamönnum var boðið að taka þátt út frá ættartengslum sínum við Vestfirði og mér var strax hugsað til ömmu minnar og sögunnar sem hún sagði okkur. Eftir rannsókn í gegnum Wikipedia og Íslendingabók fékk ég það staðfest að mæðginin Þuríður Ólafsdóttir og Jón Helgason - kennd við Selárdalsmálin - voru brennd á báli fyrir galdur, og að þau voru ættfólk mitt. Verkin mín eru helguð minningu Ólafar ömmu minnar, Þuríði, Jóni og allra fórnarlamba trúarofstækja.
Sýningin stendur yfir 1. - 20. desember, 2023.
Opið virka daga frá 12-16 og laugardaga frá 13-17. Sérstakir opnunartímar verða auglýstir síðar.