top of page

Anna Rún Tryggvadóttir opnar í Bad Ischl - Menningarhöfuðborg Evrópu

508A4884.JPG

fimmtudagur, 18. janúar 2024

Anna Rún Tryggvadóttir opnar í Bad Ischl - Menningarhöfuðborg Evrópu

Myndlistarkonan Anna Rún Tryggvadóttir sýnir verkið „Strata" á sýningunni „Sudhaus – Kunst mit Salz & Wasser" í Bad Ischl í Salzkammergut í Austurríki þann 20. janúar næstkomandi. Mun Anna Rún Tryggvadóttir sýna sitt nýjasta verk, Strata, á samsýningunni Sudhaus – Kunst mit Salz & Wasser.

Verkið Strata er 25 metra löng innsetning úr grjóthnullungum, salti og vatnslitum. Þetta tilkomumikla verk verður í stöðugri þróun á þeim sex mánuðum sem gjörningurinn stendur yfir. Máltækið að dropinn holi steininn verður hér Önnu Rún að yrkisefni þar sem hún lætur vatnslit drjúpa með reglubundnum hætti á salthúðuð berglög sem hún stillir upp í sýningarrýminu. Rétt eins og í náttúrunni setur vatnið, og í þessu tilfelli vantsliturinn, mörk sín á salthjúp hinna 85 milljón ára gömlu berghnullunga sem Anna Rún hefur safnað úr nærumhverfi sýningarstaðarins. Listakonan sviðsetur því lífrænt ferli náttúrunnar í tilbúnum manngerðum aðstæðum sem vekur áhorfendur til umhugsunar um hringrás efna og náttúrunnar. Samtímis setur hún hið síendurtekna augnablik í forgrunn þegar dropinn skellur á steininn og holar hann, augnablik sem sífellt fellur milli fortíðar og framtíðar.

Hátíðaropnun Bad Ischl sem menningarhöfuðborgar Evrópu svo og sýningarinnar Sudhaus – List í vatni og salti, er þann 20. janúar næstkomandi og býður upp á einstakt tækifæri fyrir listunnendur að upplifa verk Önnu Rúnar Tryggvadóttur og annarra þekktra listamanna eins og Michael Sailstorfer eða Anouk Kruithof í stórbrotnu umhverfi Bad Ischl í Austurrísku Ölpunum þar sem einnig má finna elstu saltnámu Evrópu.

Anna Rún Tryggvadóttir, fædd 1980, er íslensk myndlistarkona sem býr í Reykjavík og Berlín. Í listsköpun sinni rannsakar Anna Rún innri virkni náttúrulegra efna og fyrirbæra, oft í formi ferilbundinna innsetninga og efnislegra gjörninga. Hún rannsakar innri hreyfingu og innbyrðis tengsl ólíkra þátta í nærumhverfi okkar sem og í jörðinni allri. Allt frá segulsviði jarðarinnar að virkni litpigmenta og salts. Þótt hennar kjarna miðill innan myndlistarinnar sé vatnsliturinn vinnur hún einnig í fjölda annarra miðla og oftar en ekki að stórumskúlptúrískum innsetningum sem snerta á togstreytu hins vélræna og tæknilega annars vegar og náttúrunnar hins vegar. Anna Rún dregur fram á sjónarsviðið ósýnilega krafta jarðarinnar og stillir þeim upp í nýtt samhengi við mannskepnuna.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page