Anna Jóa fulltrúi FÍM á TORG listamessu 2023

fimmtudagur, 28. september 2023
Anna Jóa fulltrúi FÍM á TORG listamessu 2023
SÍM bauð Félagi íslenskra myndlistarmanna (FÍM) að velja einn listamann úr sínum röðum sem fullrúa á TORGi listamessu. Myndlistarmaðurinn Anna Jóa varð fyrir valinu og verða verk hennar til sýnis í kaffistofunni á opnunartíma TORGsins.
Myndlistarverk Önnu Jóa hverfast um minningar, skynjun, staði og sjálfsmynd. Í verkum sínum hefur hún kannað einkarými jafnt sem almenningsrými og náttúrulegt umhverfi. Hún hefur sýnt olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar, texta- og ljósmyndaverk.
Anna Jóa lauk námi frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og meistaragráðu frá fagurlistadeild École nationale supérieure des Arts Décoratifs (ENSAD) í París árið 1996. Hún nam síðar listfræði við Háskóla Íslands. Anna hefur haldið á annan tug einkasýninga á verkum sínum auk þess að taka þátt í samsýningum á Íslandi og erlendis. Verk eftir Önnu eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja og einkaaðila. Hún var einn stofnenda sýningarrýmisins Gallerís Skugga og sá um rekstur þess um árabil. Þá hefur hún starfað við sýningarstjórnun, sinnt ritstörfum, listgagnrýni og stundakennslu í listfræði við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Anna býr og starfar í Reykjavík.