Andlát: Sigrún Ögmundsdóttir
fimmtudagur, 14. nóvember 2024
Andlát: Sigrún Ögmundsdóttir
Sigrún Ögmundsdóttir fæddist 4. júlí 1959 í Reykjavík. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 29. október 2024.
Foreldrar hennar eru Jóhanna Boeskov, f. 12. júlí 1932, og Ögmundur Haukur Guðmundsson, f. 22. apríl 1924, d. 17. júní 1995.
Systur hennar eru Ása Ögmundsdóttir, f. 18. desember 1957, maki Árni Reykdal og dóttir Freyja Ingadóttir, og Elín Ögmundsdóttir, f. 5. október 1967, maki Óli Þór Hilmarsson og börn Dagmar Óladóttir og Hlynur Ólason. Samfeðra eru Rósa, Steindór, Örn og Ingibjörg.
Dóttir Sigrúnar er Vera Vilhjálmsdóttir, f. 17. júní 1983, faðir hennar er Vilhjálmur Svansson.
Sigrún ólst upp í Hafnarfirði fyrstu árin en fluttist síðar í Kópavog og sótti þar grunn- og menntaskóla. Hún stundaði nám í grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1980-1985 og síðar í grafíkdeild Det Fynske Kunstakademi í Odense í Danmörku 1986-1990 þar sem hún útskrifaðist með BA-próf.
Sigrún vann í 10 ár hjá Landssambandi hestamannafélaga og fór þaðan yfir í Fjármálaeftirlitið árið 2008 þar sem hún starfaði þar til hún fór í veikindaleyfi í ársbyrjun 2024. Sigrún vann alltaf að listinni samsíða annarri vinnu, hún tók þátt í fjölmörgum samsýningum, ásamt því að halda einkasýningar á sínum myndlistarferli. Hún tók virkan þátt í Íslenskri grafík í fjölmörg ár og sat meðal annars í stjórn félagsins um tíma.