Andlát: Hallsteinn Sigurðsson
fimmtudagur, 1. febrúar 2024
Andlát: Hallsteinn Sigurðsson
Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari lést þann 24. janúar síðastliðinn, 78 ára að aldri.
Hallsteinn á að baki áratuga myndlistarferil og eftir hann liggur fjöldi verka, einkum þrívíð verk unnin í málma, leir og gifs. Hann hneigðist snemma til sköpunar og þegar í gagnfræðiskóla var hann ákveðinn að helga myndlistinni starfsævi sína. Hann kynntist ungur verkum föðurbróður síns Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og sem unglingur aðstoðaði hann við að stækka verkin í garðinum umhverfis hús Ásmundar við Sigtún.
Hallsteinn nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1963 – 1966 en hélt síðan til London þar sem hann lagði stund á höggmyndagerð við Hammersmith College og víðar.
Hallsteinn Sigurðsson er einkum þekktur fyrir abstrakt skúlptúra sem líkja má við þrívíðar teikningar úr málmi en einnig steypt verk sem vísa í goðsöguleg minni. Hann hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk eftir hann víða í opinberum söfnum en einnig í einkaeigu. Þekkt eru listaverk hans í almenningsrými jafnt í Reykjavík sem úti um land.
Árið 2013 tók Reykjavíkurborg við veglegri gjöf Hallsteins til Reykvíkinga. Um var að ræða 16 höggmyndir úr áli sem Hallsteinn kom fyrir í landi Gufuness á árunum 1989 til 2012 og standa á hæð austan við gömlu áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Í dag er þar gróinn höggmyndagarður þar sem skúlptúrarnir hafa notið sín og veitt gestum og gangandi ánægju eftir að byggð þéttist í Grafarvogi.
Hallsteinn var alla tíð virkur þátttakandi í félagsstörfum myndlistarmanna, einkum í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík sem hann stofnaði ásamt fleirum árið 1972. Árið 2020 stofnaði Hallsteinn Menningarsjóð Hallsteins Sigurðssonar með aðsetur á heimili listamannsins að Ystaseli í Reykjavík. Þar bjó hann í nær hálfa öld, hafði þar vinnustofu og kom upp höggmyndagarði umhverfis húsið.
Menningarsjóðurinn starfar í skjóli Myndhöggvarafélagsins og er markmið hans að koma á fót vinnustofu sem verður ráðstafað tímabundið til ólíkra myndlistarmanna sem fást við sköpun þrívíðra listaverka en jafnframt er hlutverk hans að halda á lofti minningu listamannsins.