top of page

Amanda Riffo sýnir The Blue Spot í Gluggagalleríinu STÉTT

508A4884.JPG

föstudagur, 28. febrúar 2025

Amanda Riffo sýnir The Blue Spot í Gluggagalleríinu STÉTT

Amanda Riffo sýnir innsetninguna The Blue Spot í Gluggagalleríinu STÉTT. Sýningin opnar föstudaginn 28. febrúar nk. og stendur opnunin frá kl. 17:00 til 19:00. Gluggagalleríið STÉTT er sýningarrými í Bolholti 6 sem opið er allan sólarhringinn, allt árið um kring.

The Blue Spot er innsetning sem hverfist um sviðsetningu á atburði: lokum svefns. Um er að ræða sögusvið sem sett er upp sem tökustaður kvikmyndar og fær á sig raunsæisblæ fyrir tilstilli landslagsmálara. Innsetningin sækir innblástur í rannsóknir á þeim kerfum sem stýra hringrás svefns og vöku. Blái bletturinn (locus coeruleus) vísar til klasa af dökkbláum heilafrumum sem stuðla að vöku þegar þær eru virkjaðar.

Amanda Riffo (f. 1977) er frá Frakklandi og Chile, en hefur búið og starfað í Reykjavík frá 2009. Að loknu meistaranámi við École Nationale Supérieure des Beaux-Arts í París lagði hún stund á frekara nám í Tókýó og Beirút. Verk hennar hafa meðal annars verið sýnd á Íslandi, í Belgíu, Finnlandi, Japan og Chile. Amanda hlaut viðurkenningu sem myndlistarmaður ársins á íslensku myndlistarverðlaununum 2024 fyrir sýninguna House of Purkinje sem fram fór í Nýlistasafninu.

Gluggagalleríið STÉTT er nýtt sýningarrými í glugga Vorstjörnunnar – Alþýðuhúss, Bolholti 6, 105 Reykjavík, þar sem til húsa eru meðal annars Samstöðin og Sósíalistaflokkur Íslands. Sýningar í galleríinu eru óháðar öllum fjölmiðlum, félagasamtökum og stjórnmálaflokkum.

The Blue Spot er fjórða sýningin sem sett er upp í rýminu. Núliðið haust sýndi listneindin sadbois þar listaverkleysuna MÁLVERND. Sumarið 2024 stóð þar sýning Steinunnar Gunnlaugsdóttur, gunbla: blueprint. Opnunarsýning gallerísins, vorið 2024, var samsýning með verkum Hildar Hákonardóttur, Steingríms Eyfjörð, Ingibjargar Magnadóttur, Jóns Óskars, Þrándar Þórarinssonar, Sigrúnar Hrólfsdóttur, Söru Björnsdóttur, Egils Sæbjörnssonar, Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar.

Umsjón með sýningarrýminu, frá og með haustinu 2024, hafa Steinunn Gunnlaugsdóttir og Snorri Páll Jónsson.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page