Amanda Riffo er vinalistamaður Nýló 2024
fimmtudagur, 29. febrúar 2024
Amanda Riffo er vinalistamaður Nýló 2024
Amanda Riffo hefur verið valin vinalistamaður Nýlistasafnsins fyrir árið 2024!
Amanda hefur tekið virkan þátt í myndlistarlífi hér og á alþjóðavettvangi um árabil, og í mars á síðasta ári vakti hún verðskuldaða athygli fyrir einkasýninguna House of Purkinje í Nýló. Þar vann hún með meðvitund okkar gagnvart hinu sjónræna umhverfi og skapaði aðstæður þar sem skyggnst var undir yfirborðið á því sem fyrir augu bar. Sýningarrýminu var umturnað í kvikmyndaver: Við vorum stödd í ókláraðri sýningu, listaverkin virtust hvergi að finna og leikurinn gekk út á að koma auga á töfrana – sem voru á endanum víða og myndlistin leyndist í hverjum hlut, efni og umbúðum. Sýningin var einlæg og leikandi, snörp og gagnrýnin. Hún náði að bregða umhverfi listamanna og aðfluttra íslendinga undir sjóngler á sama tíma og máttur myndlistarinnar skein skæru ljósi.
Amanda hefur skapað verk í upplagi fyrir safnið, sem ber titillinn Rather Expansive. Við bjóðum ykkur að vera viðstödd afhjúpun verksins miðvikudaginn 20. mars kl. 17:00. Boðið verður upp á léttar veitingar. Í verkinu Rather Expansive beitir Amanda svipuðum aðferðum og í einkasýningunni. Verkið er nokkurs konar æfing sem dregur raunveruleikann í efa og er drifin áfram af blöndu af barnslegri forvitni og þörf listamannsins til að afhjúpa þau mannlegu kerfi sem hafa ráðandi áhrif á daglegt líf okkar.
Amanda Riffo (f.1977) kemur frá Frakklandi og Chíle, en býr og starfar í Reykjavík. Eftir að hafa lokið meistaranámi við École Nationale Supérieure des Beaux-Arts, París, fór hún í skiptinám í Tókýó og Beirút. Verk hennar hafa verið sýnd í Evrópu, Japan, Íslandi, Chile, Finnlandi, Belgíu og fleiri. Meðal sýningaverkefna á Íslandi má nefna einkasýningu hennar í Open (Reykjavík, 2018) og Skaftfelli (Seyðisfirði, 2019), auk þátttöku í alþjóðlega tvíæringnum Sequences Xl (Reykjavík, 2019).
Ár hvert fær Nýló framúrskarandi listamann til að skapa verk í 40 eintökum, sem vinir Nýló fá í þakklætisskyni frá safninu. Vinir Nýló er hópur fólks sem styður sérstaklega við metnaðarfulla sýningarstarfsemi og viðburðadagskrá Nýlistasafnsins. Fyrsti vinalistamaður safnsins var Hreinn Friðfinnsson árið 2016. Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, Unndór Egill Jónsson, Arna Óttarsdóttir, Guðjón Ketilsson, Melanie Ubaldo og Eygló Harðardóttir hafa öll verið vinalistamenn í kjölfarið. Nánar má lesa um vinaprógram safnsins á www.nylo.is/vinir-nylo