Allt er nálægt/all is nigh – Kristinn E. Hrafnsson

fimmtudagur, 13. apríl 2023
Allt er nálægt/all is nigh – Kristinn E. Hrafnsson
Laugardaginn 15. apríl klukkan 16.00 opnar Kristinn E. Hrafnsson fimmtu einkasýningu sína í Hverfisgalleríi og ber hún nafnið allt er nálægt / all is nigh. Þar verða skúlptúrar á gólfum og lágmyndir á veggjum.
Í yfir þrjátíu ár hefur Kristinn E. Hrafnsson tekið virkan þátt í að móta umhverfi borgar og sveitar með ísmeygilegum, ljóðrænum, húmorískum og heimspekilegum spurningum um stað og tíma. Verk hans eru áminning um að hvorki klukkan né jörðin undir fótum okkar eru sjálfsagðir hlutir. Þau eru þátttakendur í daglegu lífi þúsunda manna og kvenna. Sem slík spyrja þau daglega í sífellu. Spurninga um hvernig við finnum okkur stað í heiminum, hvernig við náum áttum.
Í sýningartexta Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sem hann nefnir Tími og fjarlægð, segir: „Tíminn líður. Það er vissa okkar. Og líklega sannfæring. Kannski má það ekki minna vera. Frá skríkjandi æskunni kemur hann og fer. Heldur fálmandi. Og sjálfsagt er þar eitthvert öryggi komið. Því tímanum getur ekki verið öðruvísi varið. Hann kemur og fer, hiklaus, eindreginn. Eins og þráðbein lína. Skýr. Og það er hann í eðli sínu. Frá einum tíma til annars. Úr austri til vesturs. Og okkur mannkyninu er einhvern veginn komið fyrir innan þessara tímafreku átta. […]
„Tíminn er listamanninum Kristni E. Hrafnssyni hugstæður. En það er ekki nýtilkomið. Og sömuleiðis nálægðin, svo áþreifanleg sem hún er á snúningi jarðar um öxul sinn, frá vestri til austurs. Og þar vegur það það smáa og stóra salt, ásamt því beina og ávala. En þarna er listin komin, Kristins sjálfs, en líka bara afstaða hans og viðhorf, því einhvern veginn vaknar maður – og á aðra vegu sofnar maður. Það er ramminn. Allt gerist þar, utan og innan, í misjafnlega skrifuðum strikum og sveigum.”
Kristinn E. Hrafnsson er fæddur árið 1960 á Ólafsfirði. Hann stundaði nám í Myndlistarskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi árið 1990. Kristinn býr og starfar á Seltjarnarnesi. Kristinn verið virkur í íslensku myndlistarlífi í um fjóra áratugi, tekið þátt í fjölda sýninga hér á landi og erlendis og á fjölmörg verk í opinberu rými víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og víðar. Samband listaverksins við vettvanginn er mikilvægur þáttur í verkum Kristins, en á ferli sínum hefur Kristinn gert fjölda umhverfisverka, ýmist einn eða í samvinnu með arkitektum. Verk Kristins hafa verið sýnd á Íslandi og víða um Evrópu og eru verk hans að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi sem og í opinberum söfnum og einkasöfnum.
Sýningartexti eftir Sigmund Erni Rúnarsson.
Nánari upplýsingar veitir Sigríður L. Gunnarsdóttir: 864-9692 og sigridur@hverfisgalleri.is


