Alþýðuhúsið á Siglufirði um Verslunarmannahelgina
mánudagur, 31. júlí 2023
Alþýðuhúsið á Siglufirði um Verslunarmannahelgina
Alþýðuhúsið á Siglufirði fagnar Verslunarmannahelginni með tveimur menningarviðburðum.
Ráðhildur Ingadóttir opnar sýningu í Kompunni laugardaginn 5. ágúst kl. 14.00.
Sýningin stendur til 20. ágúst og er opin frá kl. 14.00 - 17.00 alla daga.
Sýning Ráðhildar Ingadóttur í Kompunni samanstendur af teikningum á pappír ásamt einni stórri
veggteikningu. Verkin eru hugsuð sem ferli, eða þróun á seríu teikninga með nafnið “Hugleiðingar
um þyngdarbylgjur” frá 2021.
Ráðhildur Ingadóttir (1959) hefur haldið fjölmargar margar einkasýningar frá árinu 1986. Fyrsta
sýning hennar var í Nýlistasafninu, og síðan þá hefur hún sýnt mikið, bæði hér á landi og víða um
Evrópu. Verk eftir hana eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins.
Ráðhildur stundaði nám í myndlist á Englandi 1981–1986, við Emerson College in Sussex og St.
Albans College of Art and Design. Hún var stundakennari við Myndlista og handíðaskóla Íslands
og Listaháskóla Íslands, 1992–2002. Ráðhildur var í stjórn Nýlistasafnsins 2000–2002. Hún hefur
hlotið hin ýmsu starfslaun og styrki bæði á Íslandi og í Danmörku. Ráðhildur er fædd í Reykjavík,
hún býr og starfar í Kaupmannahöfn og á Seyðisfirði.
Ráðhildur vinnur með ákveðna hugmyndafræði í verkum sínum sem hún útfærir í marga miðla;
texta, teikningu, málun, skúlptúr og myndbönd, og er framsetning þeirra jafnan í margslungnum
innsetningum. Um langt skeið hefur myndlist hennar mótast af hugmyndum um rúmfræðilega
vörpun og hliðrun í rými og tíma. Ferli verka hennar byrjar jafnan á því að hún gerir teikningar sem
byggðar eru á grunni projectívrar geómetríu, og fríhendis teikningum sem byggja á sama grunni.
Verkin þróast oft út í langtíma verk/ verkefni sem geta jafnvel tekið áratugi í vinnslu, samanber
Verkið Iður/Vortex 1998 - 2021, sem á upphaf sitt að rekja til teikninga af iðum sem eru tákn fyrir
hreyfingu heimsins alls.
Sunnudagskaffi með skapandi fólki: Kolbeinn Óttarsson Proppé
Sunnudaginn 6. ágúst kl. 15.00 - 16.00 verður Kolbeinn Óttarsson Proppé með erindi í
Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Í þessu klukkutíma kaffisamsæti er
markmiðið að varpa ljósi á allt það skapandi starf sem unnið er í samfélaginu og bjóða uppá
umræður.
Kolbeinn Óttarsson Proppé er sagnfræðingur að mennt. Hann starfaði lengi við ýmislegt sem við
kom textaskrifum; vann að bókaskrifum, þýðingum og ýmiskonar greinaskrifum og starfaði sem
blaðamaður í mörg ár. Þá hefur hann starfað í stjórnmálum ásamt því að gegna ýmis konar setu í nefndum og ráðum. Kolbeinn hefur undanfarin ár búið á Siglufirði og vinnur þar að ýmis konar verkefnum, m.a.
tengdum rafvæðingu strandveiðibáta og uppbyggingu starfsemi tengdri siglingu um norðurslóðir,
ásamt því að vera háseti á grásleppuveiðum.
Kolbeinn bjó á Siglufirði sem barn og unglingur og þekkir þann skapandi kraft sem býr í bænum;
bæði af því að alast þar upp og af því að snúa aftur heim og vinna að því að skapa nýja starfsemi.
Kolbeinn mun spjalla um þau verkefni sem hann vinnur að, samstarfi við fólk í Suður-Kóreu og
ýmislegt fleira; Siglufjörð, hafið, náttúruna og fólkið.