top of page

25 ára afmælishátíð Skaftfells - Bréf frá Önnu Eyjólfs

508A4884.JPG

fimmtudagur, 14. september 2023

25 ára afmælishátíð Skaftfells - Bréf frá Önnu Eyjólfs

Hver skyldi trúa því að það séu liðin 25 ár frá stofnun Skaftfells Myndlistarmiðstöðvar Austurlands?

Í tilefni afmælisins var opnuð myndlistarsýningin Laust mál | Free Verse laugardaginn 9. september. Verkin á sýningunni tengjast “visual poetry” en sýningin sækir innblástur í fyrstu sýninguna í Skaftfelli, sem var sýning á prentuðum verkum eða bókverkum frá bókabúðinni Boekie Woekie í Amsterdam.

Listamennirnir, skáld og myndlistarmenn, sem eiga verk á sýningunni eru: Anne Carson, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Birgir Andrésson, Dieter Roth, Guðjón Ketilsson, Joe Keys, Jón Laxdal Halldórsson, Kristín Ómarsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Ragnar Helgi Ólafsson, Roni Horn.

Sýningarstjórar eru Pari Stave, forstöðumaður Skaftfells og Ásta Fanney Sigurðardóttir. Sýningin nýtur sín vel í salnum, sem hefur fengið andlistslyftingu með því að stigi í miðju salarins, girtur handriði, sem lá niður á jarðhæðina hefur verið fjarlægður. Opnunin var vel sótt og komu gestir úr héraðinu en einnig víðar að eins og frá Akureyri, Reykjavík, Kaupmannahöfn og Amsterdam. Eftir opnunina bauð Pari Stave til veglegs matarboðs í Skaftfell Bistro í tilefni afmælisins. Fjölmargir fluttu stuttar ræður, rifjuðu upp sögu og tilurð Skaftfells að ógleymdum gömlum kynnum og skemmtisögum, og var þetta góð skemmtun.

Daginn eftir fékk ég leiðsögn Pari um það helsta sem drifið hefði á daga. Árið 2020 var Seyðfirðingum erfitt, eins og víðar hafði covid mikil áhrif. Enn afdrifaríkari urðu þó aurskiðurnar sem féllu um haustið. Húsið Skaftfell slapp, en skriðurnar gjöreyðilögðu Tækniminjasafnið þar sem grafík-prentsmiðja og smíða-aðstaða Skaftells voru til húsa. Skaftfell leigir nú hús við Öldugötu, Prenthúsið, af bænum, þar sem búið er að koma upp nýju grafík- og prentverkstæði sem er ágætlega búið tækjum. Á efri hæð hússins er verið að útbúa gestavinnustofur fyrir fimm listamenn.

Yfirstandandi endurskipulagning starfseminnar í Skaftfelli (aðalhúsinu) hófst með því að aðskilja Bistróið frá sýningarsalnum, sem er til mikilla bóta fyrir hvorutveggja starfsemina, í framhaldinu er unnið að hagræðingu og skipulagi skrifstofu, bókaverslun, og gestavinnustofu í húsinu.

Þess má geta að Tinna Guðmundsdóttir er að skrifa sögu Skaftfells, sem væntanleg er innan tíðar.

Alla tíð hefur verið lögð áherslu á fræðslu og hefur Skaftfell verið í samvinnu við skóla og menntastofnanir landsins en einnig unnið að fjölþjóðlegum fræðiverkefnum.

Miðstöðin er einnig orðin mikilvægur viðkomustaður erlendra listamanna og ferðamanna sem vilja kynna sér menningarstarf á Íslandi.

Það er greinilegt að myndlistarmiðstöðin Skaftfells hefur haft mikil áhrif fyrir samfélagið, menningarstarf í bænum er með miklum blóma og nægir að nefna LUNGA sem dæmi um nýjar hugmyndir sem hafa kviknað og brautryðjendastarf sem þar dafnar. Bæjarbúar hafa stutt dyggilega við þetta starf, enda er gott samstarf milli bæjarbúa og allra menningarsamtakanna í plássinu.

Mikilvægt er að tryggja að þetta mikla menningar- og uppbyggingarstarf geti dafnað og vaxið áfram.

Ég óska aðstandendum Skaftfells innilega til hamingju með 25 ára afmælið, og með árangur undangenginna ára.

Anna Eyjólfsdóttir, formaður SÍM

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page