Helga Arnalds og Matteo Fargion: LÍKAMINN ER SKÁL

fimmtudagur, 10. október 2024
Helga Arnalds og Matteo Fargion: LÍKAMINN ER SKÁL
LÍKAMINN ER SKÁL - dansverk með leir erftir Helgu Arnalds og Matteo Fargion sýnd í Tjarnarbíói.
Athugið að SÍM félagar fá 20% afslátt af miðaverði í Tjarnabíó.
Rauði þráður sýningarinnar Líkaminn er skál er endurtekningin og kerfin sem eru allt í kringum okkur og inni í okkur. Hjartslátturinn, öndunin, frumurnar, takturinn í deginum, takturinn í náttúrunni, að við vöknum, burstum tennurnar og fáum okkur kaffi. Sýningin byggir á tilfinningunni sem kemur í kjölfar þess að takturinn í þessum kerfum fer úr jafnvægi. Þetta getur verið þegar við missum ástvin, heilsuna eða eldgos brýst upp í bakgarðinum. Eitthvað gerist sem kippir jörðinni undan fótum okkar og breytir öllu sem á eftir kemur. Allt sem okkur hefur fundist gefið er ekki eins og það var. Sumarið kemur ekki lengur á eftir vorinu. Frumur líkamans missa taktinn og fara á yfirsnúning. Að vera á lífi er skyndilega ekki sjálfgefið. Allt í einu er áþreifanlegt hvernig eitt andartak getur breytt öllu. En mitt í þessari óvissu og óreiðu fæðist eitthvað alveg nýtt.
Líkaminn er skál á óhlutbundinn hátt í ólínulegri frásögn þar sem líkamleg upplifun er tjáð með leir og takti.
Fimmtudaginn 17. október verður boðið upp á lifandi listamannaspjall með listræna teyminu að lokinni sýningu.
Þetta er einstakt tækifæri til að fá innsýn í sköpunarferlið, hugmyndirnar á bak við sýninguna og það sem hefur mótað hana. Spjallið fer fram í afslöppuðu andrúmslofti á kaffihúsi Tjarnarbíó.
Samhliða spjallinu verður haldin skapandi leirstund, þar sem gestir geta sjálfir prófað að vinna með leirinn og jafnvel skapað sína eigin skál. Hvernig myndir þú tjá líkama þinn í formi skálar?
Leikhópurinn 10 fingur hefur um árabil sérhæft sig í listsköpun á mörkum leikhúss og myndlistar. Hópurinn hefur unnið með mismunandi efni í fyrri sýningum sínum, eins og pappír, plast eða mold og rannsakað ólíka eiginleika þeirra og eðli og hvernig megi gefa þeim líf með hreyfingu og líkamstjáningu. Í sýningunni Líkaminn er skál tekst hópurinn á við leir en blandar nú aðferðum sínum saman við aðferðafræði sviðslistmannsins Matteo Fargion, sem er annar aðal höfundur sýningarinnar. Aðferðafræði hans byggir á ákveðnum formúlum úr tónsmíðum sem eru yfirfærðar á hreyfingu og líkamstjáningu og á því mjög vel við vinnuaðferðir leikhópsins 10 fingur.
Aðstandendur:
Höfundar: Helga Arnalds og Matteo Fargion
Meðhöfundar: Eva Signý Berger og Valgerður Rúnarsdóttir
Leikstjórn og kóreógrafía: Matteo Fargion og Helga Arnalds
Flytjendur: Helga Arnalds og Valgerður Rúnarsdóttir
Leikmynda- og búningahönnun: Eva Signý Berger og Helga Arnalds
Myndbönd: Helga Arnalds og Eva Signý Berger
Texti: Helga Arnalds, Vala Rúnarsdóttir og Eva Signý Berger
Tónlist: Matteo Fargion
Sönglög: Francesca Fargion
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Framleiðsla: 10 fingur og MurMur Productions; Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Kara Hergils
Aðeins þrjár sýningar eftir:
Fimmtudaginn 17.október kl. 20:30
Sunnudaginn 10. nóvember kl. 20:30
Miðvikudaginn 13.nóvember ( Sem hluti af Reykjavík Dance Festival flutt á ensku)
Sýningin er styrkt af Sviðslistasjóði, Launasjóði listamanna og Borgarsjóði Reykjavíkurborgar.
Nánari upplýsingar á www.tiufingur.is