Davíð Örn Halldórsson: Typisch Gluggaveður
fimmtudagur, 23. maí 2024
Davíð Örn Halldórsson: Typisch Gluggaveður
Verið velkomin á sýningaropnun Davíðs Arnar Halldórssonar í Þulu næstkomandi laugardag, 25. maí, klukkan 17:00-19:00. Á sýningunni mun Davíð sýna seríu verka sem unnin hafa verið á síðustu tveimur árum og veltir þar upp samtali og sambandi við gluggann og gluggaveðrið.
Árið 2018 flutti Davíð til Stuttgart/Þýskalands með unnustu sinni og syni. Hann fann vinnustofuna í gegnum “three corners” og bað um pláss. Ég hafði til fyrir hann rými. Þessi bygging, þar sem hinir ýmsu listamenn starfa með ólíkar áherslur, er staðsett í miðbænum og einnig á miðju byggingarsvæði Stuttgart 21, sem að er eitt stærsta byggingarverkefni í Þýskalandi undanfarin ár.
Davíð hefur unnið í þessu rými síðan og hann vinnur oft langt fram á nótt. Þegar hann er að vinna sérðu ekki mikið af honum og ég veit bara að hann er þarna þegar ég heyri tónlist eða YouTube spjall glymja úr herberginu hans fram á ganginn. En jafnvel Davíð þarf að taka sér hlé af og til svo við hittumst í eldhúsinu öðru hvoru og fáum okkur kaffi á meðan við ræðum myndlist og verkefni líðandi stundar. Þar sem vinnustofa hans er staðsett á byggingarsvæðinu hefur hann séð staðinn stækka með árunum og upplifað þau gríðarlegu inngrip sem innviði þéttbýlis eru.
Í gegnum gluggann sinn hefur hann fengið að fylgjast með framvindu framkvæmda síðustu 6 árin, enduruppgötvað efni, vélar og mannvirki aftur og aftur og sameinað þau með hljóðum borgarinnar. Sumar framkvæmdirnar voru svo miklar að allt húsið okkar skalf og við gátum fundið fyrir byggingarreitnum í líkama okkar. Næstum öll verk Davíðs á sýningum síðustu ára, hafa orðið til í þessu húsi, þar á meðal þessi nýja röð málverka. Eins og alltaf, eru verkin máluð af mikilli virtúósíu og það er erfitt að henda reiður á tækini Davíðs, sérstaklega með viðbót epoxý-resins.
Málverkin eru marglaga og flókin í orðsins fyllstu merkingu og mjög viðkvæm. Það má segja að Davíð vinni með þráhyggju að verkum sínum, viðstöðulaust og niður að síðasta smáatriði smáatriðis. Ég fæ alltaf smá svimatilfinningu þegar ég horfi á þau. Yfirbugaður og heillaður af þessari einstöku litanotkun, þykir mér málverk Davíðs vekja hrifningu og forvitni. Hvað hvílir undir málningarlögunum og epoxýi? Hvort sem það er trúðspjald eða einföld plata, tekst Davíð að skapa mikið úr litlu og býður áhorfendum alltaf upp á nýjar leiðir til lesturs.
Þema sýningar Davíðs „Typisch gluggaveður“ er mótíf gluggans, sígilt og endurtekið viðfangsefni í listasögunni. Útsýnið að utan og innan er í grundvallaratriðum ólíkt. Á meðan það sem úti er, er frekar einhæft byggingarsvæði, sem samanstendur af stáli, steinsteypu og brútalisma, þá er útsýnið að innan þeim mun litríkara, lúmskara og munúðlegra, og hann túlkar svo umhverfið að utan á sinn hátt: dularfullt, ruglingslegt og ofhlaðið. Útsýnið inni í herberginu hans er líka listaverk í sjálfu sér, allt er það óaðfinnanlega málað, veggir, gólf og jafnvel húsgögnin, þú veist ekki hvert þú átt horfa. Þar á milli standa, liggja og hrúgast upp myndir sem hann er að vinna í samhliða og allt er litríkt og rennur saman í myndmáli Davíðs. En ég er sannfærður um að myndirnar ná aðeins hæstu gæðum sínum í hlutlausu gallerírými, þar sem áhrif myndanna eru einbeitt. Hvíti kassinn skapar möguleika á að taka þátt í hverju verki fyrir sig og sökkva sér inn í heim Davíðs. Ertuð þið tilbúinn í þetta?
Davíð Örn Halldórsson (b. 1976) útskrifaðist með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2002.Davíð hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og einkasýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Nýlegar sýningar eru einkasýningin “Mitt litla líf – pappír eða plast” / “My Little Life – Paper or Plastic” Hverfisgallerí, Reykjavík, Iceland, 2022, og hópsýningin “Solid transitions” Stuttgart21, Stuttgart, Þýskaland. Davíð býr og starfar í Stuttgart, Þýskalandi og í Reykjavík.