Daði Guðbjörnsson: Nýja gamla góða málverkið
fimmtudagur, 2. maí 2024
Daði Guðbjörnsson: Nýja gamla góða málverkið
Þann 2. maí opnar Daði Guðbjörnsson yfirlitssýninguna „Nýja gamla góða málverkið“ á Mokka málverkin voru unnin á árunum 1975 til 2000.
Þegar Daði hóf feril sinn sem myndlistarmaður, var sennilega eins konar kreppa í málaralistinni en slík tímabil eru alltaf óskastund fyrir nýliðun. Ekkert er gamalt undir sólinni og ungu listaspírurnar gátu látið eins engin væri morgundagurinn.
„Ég hef í raun ekki formlega menntun í málaralist en nokkuð góðan bakgrunn í teikningu frá Myndlistarskóla Reykjavíkur og Myndlistar- og Handíðaskóla Íslands. Ég útskrifaðist úr Nýlistadeild MHÍ og var eitt ár í Grafík deild Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam. Það má segja að ég hafi ekki verið í neinu sérstöku liði þegar ég byrjaði eða kannski í öllum liðum.
Í byrjun einkenndust myndir mínar meira af expressionisma sem þróaðist í ýmsar áttir en flestar myndirnar á sýningunni tilheyra þeim stíl, sem hefur verið mest áberandi hjá mér. Myndirnar hér á sýningunni tilheyra vonandi ekki neinni sérstakri stefnu eða hugmyndafræði.
Ég hef verið hallari undir hið sjálfsprottna fremur en hið lærða og vitsmunalega. Maður kemst þó ekki hjá því að læra af reynslunni og verða fyrir áhrifum af því sem aðrir hafa gert.“
Sýningin er opin daglega frá kl. 9.00 til 18.00, sýningin stendur til 19. júní n.k.