top of page

Á hafi kyrrðarinnar og Hikandi lína opna í Hafnarborg

508A4884.JPG

þriðjudagur, 6. júní 2023

Á hafi kyrrðarinnar og Hikandi lína opna í Hafnarborg

Laugardaginn 10. júní kl. 14 opna nýjar sýningar í Hafnarborg:

Á hafi kyrrðarinnar
Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson
Á sýningunni verða sýnd bæði ný og eldri verk þar sem Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson tvinnar saman aðferðum vefnaðar og málaralistar auk útsaumsverka, nýrra blekteikninga og vatnslitaverka. Hildur hefur búið meirihluta ævi sinnar í Cleveland í Ohio en heldur sterkt í rætur sínar á Íslandi. Hún kemur reglulega hingað til lands, ferðast, gengur um og tekur ljósmyndir, sem hún vinnur síðan úr þegar heim er komið. Auk þess að leita fanga í landslagi Íslands við gerð verka sinna hefur Hildur um árabil gert myndraðir sem byggja á heilaskönnunum og himintunglum, þar sem handlitaðir silkiþræðir tvinnast saman í dúnmjúku yfirborði og verða að athvarfi frá amstri hversdagsins.

Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson (f. 1963) lauk MFA-gráðu í myndlist frá Háskóla Kent State árið 1995 og BFA-gráðu frá sama skóla árið 1991. Hún nam myndlist við Cleveland Institute of Art 1985-1988 og lagði einnig stund á nám í arkitektúr við Kent State á árunum 1983-1985. Verk Hildar hafa verið sýnd víða, meðal annars í TANG-safninu, Tibor de Nagy-galleríinu og listahátíðinni Armory Show í New York, samtímalistasafninu í Cleveland, William Busta-galleríinu í Cleveland, auk Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Íslands. Árið 2008 hlaut Hildur hin virtu verðlaun Cleveland Arts Prize í Cleveland Museum of Art í Ohio og árið 2015 hlaut hún viðurkenningu The Louis Comfort Tiffany Foundation.

Hikandi lína
Elísabet Brynhildardóttir
Teikningin er fyrsta sjónræna viðbragð okkar við heiminum löngu áður en við lærum að skrifa og virkar sem einskonar vörpun ímyndunarafls og hugsanna í efni. Fáir miðlar myndlistarinnar komast eins nálægt hrárri sýn listamannsins eins og teikningin, hún er beintenging við hugsunina og varpar jafnframt ljósi á afar náið samband manns og verkfæris. Á sýningunni skoðar Elísabet tímann, tilfinninguna og skynjunina að baki teikningarinnar og þeirri aðgerð að teikna. Eða eins og listamaðurinn Richard Serra sagði eitt sinn: „Þú býrð ekki til teikningu – þú teiknar.“

Elísabet Brynhildardóttir (f.1983) hefur tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og öðru myndlistartengdu starfi og hafa verk hennar meðal annars verið sýnd í Kling & Bang, i8 Gallery, Listasafni Akureyrar, Verksmiðjunni á Hjalteyri, Nýlistarsafninu ásamt fleiri stöðum. Elísabet vinnur í fjölbreytta miðla þó teikning og skúlptúr séu þar mest áberandi. Í verkum sínum skoðar hún samband okkar við efnisheiminn og þolmörk þess, ásamt því að velta fyrir sér hugmyndum okkar um hverfulleika og tíma.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page