Þura: Heima og heiman í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
fimmtudagur, 28. september 2023
Þura: Heima og heiman í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar
Sýning Þuríðar Sigurðardóttur − Þuru − verður opnuð í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar föstudaginn 29. september klukkan 16:00.
Þura tengist safninu á sérstakan hátt þar sem staðsetning þess í Laugarnesi leikur lykilhlutverk. Á sýningunni býður listamaðurinn áhorfendum í ferðalag um staði og tíma sem bæði eiga sér almenna og sögulega skírskotun en jafnframt mjög persónulega. Laugarnes er ríkt af sögu langt aftur í aldir og á þessum sérstaka stað hafa ótal manns átt heima í gegnum tíðina. Ein af þeim er Þura, en hún fæddist og ólst upp í gamla Laugarnesbænum, steinsnar frá Listasafni Sigurjóns. Þar var hennar leikvöllur og er jafnvel enn í dag. Henni er hugleikið hvernig mannleg tilvist er bundin stöðum órjúfanlegum böndum, æskustöðvar skipa sérstakan sess í huga manns og móta tilveruna að svo miklu leyti. En rétt eins og við mennirnir taka staðir breytingum í tímans rás og eftir standa minningar og minjar sem eru hvort tveggja hverful fyrirbæri, brotakennd og óáreiðanleg. Á sýningunni kemur einnig við sögu Búrfellsgjá, sem er í hennar heimabæ í dag. Þura gengur gjarnan þennan farveg hrauns sem rann fyrir um 8.000 árum og skildi eftir sig breiðgötu með háum klettaveggjum á báðar hliðar, þar sem ólíkir tímar mætast og hafa orðið Þuru að yrkisefni.
Þura útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu í myndlist árið 2001. Frá námslokum hefur hún unnið að myndlist og sýnt víða bæði innanlands og utan. Þura fæst fyrst og fremst við olíumálverk og viðfangsefnið er gjarnan náttúran, stundum með þröngt eða óvænt sjónarhorn. Hún hefur kennt við Myndlistaskóla Reykjavíkur og á eigin námskeiðum. Hún átti þátt í stofnun og rekstri StartArt gallerísins við Laugaveg sem starfrækt var 2007−2009. Þuríður var valin bæjarlistamaður Garðabæjar 2004. Þura er jafnframt ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar og hefur komið víða við á löngum og farsælum tónlistarferli.