Þrjár opnanir hjá Listasafni Íslands 17. júní
fimmtudagur, 13. júní 2024
Þrjár opnanir hjá Listasafni Íslands 17. júní
Á þjóðhátíðardaginn opna þrjár og spennandi sýningar hjá Listasafni Íslands, sem gaman væri að fjalla um. Ein þeirra er samvinnuverkefni Listasafns Íslands og umboðsmanns barna og önnur samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Listasafns Ísafjarðar og er fyrsta sýningin í röð sýninga sem markar samvinnu Listasafns Íslands og sýningarstaða á landsbyggðinni.
Sýningin …að allir séu óhultir opnar í Safnahúsinu 17. Júní kl. 15
Listasafn Íslands í samstarfi við umboðsmann barna býður uppá myndlistarnámskeiðið í Safnahúsinu undir handleiðslu myndlistarfólksins Margrétar H. Blöndal og Kolbeins Huga. Börnum frá Grindavík á aldrinum 10-12 ára var sérstaklega boðin þátttaka á námskeiðinu.
Þann 17. Júní kl. 15 verður opnuð sýningin … að allir séu óhultir en þar sýna börnin afrakstur sinn af myndlistarnámskeiði þar sem unnið var út frá reynslu barna frá Grindavík sem þurftu að flýja heimili sín 10. nóvember s.l. Á sýningunni verða einnig sýndur hluti gagna frá þingi sem umboðsmaður barna hélt með börnum frá Grindavík í byrjun mars. Við opnun sýningarinnar verður stjórnvöldum afhent skýrsla með niðurstöðum fundarins í mars og verður forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson við opnunina.
Samsýningin Daufur skuggi – Fánar í íslenskri myndlist opnar í Safnahúsinu 17. Júní kl. 15
Safnahúsinu sýningin Daufur skuggi – Fánar í íslenskri myndlist en þar verður sjónum beint að fjölbreyttum verkum úr safneign Listasafns Íslands þar sem fánar eru útgangspunkturinn. Fánar eru tákn sjálfstæðis og þjóðernisvitundar. Við flöggum þeim jafnt við alvöruþrungin og gleðirík tilefni sem kalla á þjóðarstolt og ættjarðarást. Á seinni tímum hafa listamenn nýtt sér fánann á tilraunakenndan eða ögrandi hátt til að setja spurningarmerki við hugmyndir um þjóðernisvitund.
Sýningin er sett upp í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins Íslands sem stofnað var 17. júní 1944. Á sama tíma voru fánalögin samþykkt og þannig varð til opinber viðurkenning á sameiningartákni þjóðar sem hafði loks öðlast sjálfstæði eftir að hafa tilheyrt Danmörku öldum saman.
Sýningin Framtíðarfortíð opnar í Listasafni Ísafjarðar 17. Júní kl. 16
Framtíðarfortíð Listasafns Íslands og Listasafns Ísafjarðar er fyrsta sýningin í röð sýninga sem marka samvinnu Listasafns Íslands og sýningarstaða á landsbyggðinni.
Valin hafa verið verk úr safneign Listasafns Íslands eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar og hvað það þýðir að vera þjóð. Er þjóðin sú sama nú og hún var fyrir 80 árum? Breytist hún eins og manneskjan breytist á æviskeiði sínu?
Sýningin sem haldin er til að fagna 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar verður opnuð á þjóðhátíðardaginn, afmælisdegi Jóns Sigurðssonar sem fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.