top of page

Þórður Hans Baldursson: Land til sölu

508A4884.JPG

fimmtudagur, 13. nóvember 2025

Þórður Hans Baldursson: Land til sölu

Sýning Þórðar Hans Baldurssonar, Land til sölu, stendur yfir til 29. nóvember og er opin í Gallery Port, Hallgerðargötu 19-23, miðvikudaga til föstudags kl. 12-17 og laugardaga kl. 12–16. Einnig eftir samkomulagi.

Verkin á sýningunni eru af íslensku landslagi, unnin út frá ljósmyndum sem ferðamenn hafa tekið á ferð sinni um landið og skilja svo eftir sig á internetinu. Þar sem áherslan verður óhjákvæmilega lögð á staði sem öðlast hafa vægi í ferðamennsku og menningarlegri ímynd Íslands, nær Þórður Hans að nálgast náttúruna út frá auga gestsins. Með þennan upphafspunkt spegla verkin hvernig við höfðum lært að horfa á náttúruna og hvað við horfum á, ekki aðeins sem raunverulegt landslag, heldur sem mynd, minningu eða eftirmynd.

Flosið, sem áður tilheyrði hefðbundu handverki og oftar en ekki heimilum, verður hér miðill til að draga fram þessa nýju sýn. Miðillinn leyfir ekki annað en að myndefninu sem þjappað saman í frekar einfalda mynd, ekki ólíkt stafrænni ljósmynd með hámarksfjölda pixla á fletinum.

Áferðin og þræðirnir skapa þannig rými sem virðist bæði kunnuglegt og nýtt. Landslagið í verkum Þórðar Hans öðlast líkamlega nærveru gegnum þráðinn, en minnir samt á sama tíma á sköpunarferlið sjálft, þar sem myndin er mótuð og endursköpuð í annarri framsetningu.

Þórður Hans Baldursson útskrifaðist frá Konunglegu Listaakademíunni í Haag árið 2023. Verk hans hafa verið sýnd víðsvegar í Evrópu sem og á Íslandi t.a.m. í Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Akureyrar. Upphafspunktur verka hans eru leikur með efni, form og hugmyndir. En undir yfirborði leiksins leynast spurningar um menningu, samfélagið og virði hlutanna í kringum okkur.

Land til sölu er þriðja einkasýning Þórðar Hans á Íslandi.

Allar nánari upplýsingar um sýninguna og verkaskrá hennar má nálgast í skilaboðum og á info@galleryport.is

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page