Ótemja í Gallerí Gróttu
fimmtudagur, 22. ágúst 2024
Ótemja í Gallerí Gróttu
Sýningaropnun laugardaginn 24. ágúst kl. 14 - Menningarnótt
Sýningin Ótemja kannar hugmyndir í kringum hið „villta" og birtingarmynd þess innan lista, feminisma, náttúru og fagurfræði. Hið ótamda kallar ósjálfrátt á ákveðna skautun (polarization) sem afhjúpar hugmyndir okkar um menningu og atferli um leið og það þrýstir á mörk væntinga og ástands. Enn fremur krefst hið ótamda þess að við metum hugmyndir okkar um fegurð, krafta og frelsi á nýjan eða annan hátt.
Listamenn sýningarinnar eru Dagmar Atladóttir, Elín Anna Þórisdóttir og Guðný Rúnarsdóttir. Í verkum sýningarinnar kanna listamennirnir hugmyndir sem varða hið ótamda út frá mismunandi sjónarhornum og í gegnum mismunandi listform.
Dagmar Atladóttir útskrifaðist með bakkalárgráðu í myndlist frá AKI ArtEZ árið 2006 og með meistaragráðu í hönnun frá The Dirty Art Department, Sandberg Instituute Amsterdam árið 2015.
Elín Anna Þórisdóttir útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2004, hún bætti við sig MA.art.ed gráðu árið 2018 og hefur einnig lokið diplómu í keramik við Myndlistaskólann í Reykjavík, 2016
Guðný Rúnarsdóttir útskrifaðist árið 2003 með BA gráðu í myndlist frá LHÍ, eftir það lauk hún diplómu í keramiki frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Árið 2013 útskrifaðist Guðný með M. Art. Ed. frá Listkennsludeild LHÍ og hefur kennt sjónlistir á ýmsum vettvangi.
Sýningin er opin á afgreiðslutíma bókasafnsins.
Síðasti sýningardagur er laugardagurinn 14. september nk.