top of page

Óþekkt alúð – haustsýning Hafnarborgar 2024

508A4884.JPG

fimmtudagur, 7. desember 2023

Óþekkt alúð – haustsýning Hafnarborgar 2024

Listráð Hafnarborgar hefur valið sýningartillögu Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur úr fjölda innsendra tillagna um næstu haustsýningu safnsins árið 2024. Titill sýningarinnar er Óþekkt alúð en þátttakendur eru konur og kvár sem sýna munu ný verk í bland við eldri verk.

Óþekkt alúð er hugsuð sem leit að sannleika um samtímann og myndlist sem heilandi afl, æðra vald eða jafnvel skilaboð að handan. Sýningin mun innihalda verk eftir fjölbreyttan hóp listamanna sem mynda skipulagsbundna lífræna heild í sýningarrými Hafnarborgar og tjáir til áhorfenda skilaboð að handan í því skyni að hræra við einhverju innra með þeim. Skilaboð sem skerpa hugann en mýkja hjartað jafnframt því að veita styrk til þess að aðlagast erfiðum aðstæðum og taka af ástríkum skilningi á móti nýjum hugmyndum, sem kunna að vera fjarlægar eða framandi. Þannig verður til smáheimur sem samsvarar sjálfum alheiminum.

Markmið sýningarinnar er að særa fram heilandi frumöfl sem má finna fyrir í heiminum, á sama tíma og hún horfist í augu við rof samtímans. Listamenn sýningarinnar eiga það sameiginlegt að tala ýmist til heilandi afla, sem sýningarstjóri vísar til sem óþekktrar alúðar, eða kryfja samtímann af þessari óþekktu alúð hver á sinn hátt, á marglaga og flókinn máta. Sýningin mun kryfja þessa óþekktu alúð sem birtist sýningarstjóra sem undiralda raunveruleikans. Þá kann hún að vera missterk á tímum þótt hana megi greina sem lágstemmda togstreitu eða spennu. Spennu sem er bæði hverful og stöðug á sama tíma. Spennu sem er tengd við hjarta alheimsins, miðjuna sem allt líf sprettur af.

Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir er listfræðingur og sýningarstjóri sem starfar við Myndlistarmiðstöð þar sem hún sinnir stöðu verkefnastjóra alþjóðlegra verkefna og tekur því þátt í framkvæmd Íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum og Sequences myndlistarhátíðinni. Þá er Þórhildur Tinna jafnframt einn af aðalskipuleggjendum LungA, listahátíðar ungs fólks á Austurlandi, sem á ári hverju er skipulögð af hópi ungs fólks sem hefur einskæran áhuga á myndlist og menningu. Þórhildur Tinna útskrifaðist með BA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands og lauk síðan framhaldsnámi frá King’s College, London, þar sem hún hlaut meistaragráðu í menningar- og listastjórnun með sérstaka áherslu á sýningastjórnun.

Sýningin verður sú fjórtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa upprennandi sýningarstjórum kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page