top of page

Íslensku safnaverðlaunin 2022 - Tilnefningar

508A4884.JPG

miðvikudagur, 4. maí 2022

Íslensku safnaverðlaunin 2022 - Tilnefningar

TILNEFNINGAR TIL ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNANNA 2022

Í dag var tilkynnt hvaða söfn eru tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2022. Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum, sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Þetta er í tuttugasta og fyrsta sinn sem verðlaunin verða afhent. Í ár bárust vel á annan tug tilnefninga, ýmist frá söfnunum sjálfum og almenningi. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Viðburðurinn er opinn öllum og verður auglýstur nánar síðar.

TILNEFNINGAR VALNEFNDAR Í STAFRÓFSRÖÐ:

Byggðasafnið í Görðum – ný grunnsýning
Það er mat valnefndar að ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum sé framúrskarandi verkefni, þar sem faglegt safnastarf og vönduð úrvinnsla fara saman. Þar er hugað að því að ólíkir gestir finni eitthvað við sitt hæfi og að hver og einn geti notið sýningarinnar á sínum hraða og forsendum. Það er augljóst að grunnsýningin er stórt verkefni sem hefur kostað mikla vinnu en snjallar lausnir hafa gert safninu kleift að skapa sýningu sem stenst fyllilega kröfur samtímans um fjölbreytta miðlun og aðgengileika.

Gerðarsafn – nýjar áherslur í miðlun
Mat valnefndar er að nýjar áherslur í miðlun Gerðarsafns nái til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan og faglegan hátt, bæði með hefðbundnum leiðum miðlunar sem og notkun á nýjum miðlum. Safninu tókst sérstaklega vel til með verkefninu Í takti þar sem markmiðið var að gera safnið unglingavænna og stofna sérstakt unglingaráð safnsins. Nýjar áherslur Gerðarsafns í miðlun á samtímalist og safnkosti er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Hönnunarsafn Íslands – Í stafrænum tengslum
Það er mat valnefndar að Hönnunarsafni Íslands hefur tekist einstaklega vel til við að ná til nýrra gesta með því að styrkja og nýta enn betur hin stafrænu tengsl sem eru orðin hluti af daglegum veruleika samfélagsins. Öflug miðlun safnsins á safnskosti og rannsóknum þeim tengdum, hvort sem er í sýningum þess eða í stafrænum rýmum er nýstárleg og eftirtektarverð og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Minjasafnið á Akureyri – safn í tengslum við samfélagið
Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.

Síldarminjasafn Íslands – framúrskarandi fræðsluverkefni
Mat valnefndar er að verkefnið „Safn sem námsvettvangur“ sé fyrirmyndarverkefni. Lykillinn að velgengni þess er góð samvinna safns og skóla, sem varð til þess að sá einstaki árangur náðist að safnfræðslan varð hluti af stundaskrá þeirra grunnskólanemenda sem hún miðaði að. Þar með eflast góð tengsl við íbúa í heimabyggð og staða safnsins sem virkur þáttur í menntun og tómstundum grunnskólabarna. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page