Íslenski bærinn - Austur Meðalholtum: Magn tímafars / Power of Passage
föstudagur, 23. september 2022
Íslenski bærinn - Austur Meðalholtum: Magn tímafars / Power of Passage
Íslenski bærinn - Austur Meðalholtum Laugardagurinn 24. september, 2022
Um er að ræða hátíð/sýningu með megináherslu á tímatengda myndlist þar sem mismunandi miðlar verða hafðir um hönd. Þessi verk eiga það sammerkt að hinn tímatengdi flutningur, gerningurinn, ásamt réttu rými, efni og myndmáli mynda eina heild; að ógleymdum líkama eða líkömum þeirra sem framkvæma verkið. Eitt einkenni þessa listforms er að skrásetningin, ýmist í ljósmyndum, kvikmynd eða efnislegum afritum eða ummerkjum er að öllu jöfnu skilgreind sem órofa hluti hins tímatengda listgjörnings.
Magn Tímafars, er eins konar sjálfsprottin myndhverfing fengin úr samtali Hannesar Lárussonar við Jóhann Eyfells um kjarna verka hans, Power of Passage. Magn tímafars mun fara fram í aðalsýningarskála, auk annarra sýningarrýma og athafnasvæðis innan vébanda menningarsetursins Íslenski bærinn að Austur-Meðalholtum í Flóahreppi. Þennan stað verður að telja afar vænlegan fyrir framkvæmd og framsetningu listar af þessu tagi, bæði hvað snertir fjölbreytileika rýma og annarrar aðstöðu ásamt mjög heppilegri staðsetningu og nálægðar við helstu þéttbýliskjarna. Ólafur Lárusson (1951-2014) sem var mikilvirkur gjörningalistamaður var fæddur í Austur-Meðalholtum, verk eftir hann verður sýnt á hátíðinni.
Hátíðin er haldin til heiðurs Gísla Regin Bryndísarsyni sem féll sviplega frá á síðasta ári. Við lítum á Gísla sem verndara verkefnisins. Einum listamanni búsettum erlendis verður úthlutað vinnustofudvöl og styrk úr minningarsjóði Gísla til þess að framkvæma verk á Magni tímafars ár hvert en stefnt er að því að þessi hátið verði haldin árlega og muni í framtíðinni verða vettvangur fyrir tímatengda myndlist á breiðum grundvelli og þannig laða fram ný verk og óvæntar tilraunir. Jafnframt verða fengnir á staðinn útvaldir erlendir listamenn sem náð hafa frumlegu valdi á hinum kröfuharða miðli.
Sýningarstjórar hátíðarinnar eru Hannes Lárusson og Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir sem einnig eru staðarhaldarar Íslenska bæjarins.
Hannes hefur komið töluvert við sögu tímatengdrar myndlistar á Íslandi í meira en fjóra áratugi, skrifað fjölda greina um það listform og skipulagt marga viðburði þar sem tímatengd myndlist er í forgrunni. Hannes hefur framkvæmt um fimmtíu gerninga, þ. á. m. í flestum Evrópulöndum og Kanada ýmist sem sjálfstæð verk eða sem hluta af sýningum eða innsetningum. Hannes mun sjálfur flytja nýtt verk á hátíðinni.
Bryndís hefur notað hreyfingar sem aflvaka og tæki til þrívíðrar formgerðar jafnframt því að draga fram form og hrynjandi í samspili lifandi og dauðra efniseininga og í bergmáli þess sem fellur utan kerfis. Hún er ein stofnenda listahátíðarinnar Sequences sem leggur megináherslu á tíma- og rýmistengda myndlist og hefur haft með höndum sýningarstjórn, uppsetningu og útgáfu tengda fjölmörgum listviðburðum. Bryndís sýnir nýtt verk á Magn tímafars-Power of Passage.
Sýningin mun hefjast kl. 14:00 og að líkindum teygja sig fram eftir kvöldi, og sum verkanna verða uppi við lengur eftir atvikum. Gert er ráð fyrir að um 20 listamenn muni taka þátt, vonandi flestir með nýju framlagi, en í sumum tilfellum væri um að ræða endurflutning á sögulegum verkum frá árdögum tímtengdra listgerninga á Íslandi, og/eða upplýsta umfjöllun um útvalin verk. - Á Magn tímafars - Power of Passage mun því fara fram skrásetning á einhverjum mikilvægasta kafla í sögu nútímamyndlistar á Íslandi, af fólki sem tekið hefur virkan þátt í að móta þessa sögu.
Að lokinni hátíðinni verður gefin út einföld sýningarskrá, sem samanstendur af lausblaðamöppu með jafn mörgum blöðum og fjölda listamanna sem taka þátt í hátíðinni. Einnig verður gerð grein fyrir dagskrá, tímasetningum, framlagi og flutningi á Instagramsíðunni: https://www.instagram.com/magntimafars_powerofpassage/
ÍSLENSKI BÆRINN/TURF HOUSE MUSEUM
Austur Meðalholtum, 801 Selfoss, Iceland
www.islenskibaerinn.is /www.facebook.com/islenskibaerinn
https://www.instagram.com/islenskibaerin/
islenskibaerinn@gmail.com