Í Töfraveröld Litanna

miðvikudagur, 27. ágúst 2025
Í Töfraveröld Litanna
Björg Atla opnar málverkasýningu í Gróskusalnum, Garðatorgi
Í töfraveröld litanna
Björg Atla sagði einu sinni í blaðaviðtali að hvert málverk væri „veröld út af fyrir sig, sem lýtur sínum eigin lögmálum og verður að standa ein og óstudd.“ Á sýningu hennar í Gróskusalnum má sjá verk sem spanna nokkuð langt tímabil, stóran hluta af ferli hennar í myndlistinni, en hún var orðin nokkuð eldri en flestir samnemar hennar þegar hún útskrifaðist úr myndlistanámi á níunda áratugnum. Hún á þó ekki langt að sækja áhugan á myndlist því faðir hennar, Atli Már, var vinsæll málari á sinni tíð.
Litirnir og birtan eru meginviðfangsefni Bjargar, en hún brýtur líka oft upp myndflötinn með sterkum og flæðandi formum svo því er líkast að orðið hafi sprenging í litnum. Hver mynd er eins konar ferðalag þar sem áhorfandinn getur sett sig í spor málarans og séð hvernig litirnir kallast á og flæða svo úr verður eins konar landslag, þó alveg óhlutbundið – landslag sem við getum aðeins ferðast um í huganum með litina sjálfa að leiðarhnoða.
Gróskusalurinn er á annari hæð á Garðatorgi í Garðabæ. Sýningin stendur frá 29. ágúst til 21. september og er opin frá 13.00 til 18.00, frá miðvikudegi til sunnudags.


