Ásmundarsalur: Destination Mars - Sara Riel
föstudagur, 25. mars 2022
Ásmundarsalur: Destination Mars - Sara Riel
Verið velkomin á opnun Destination Mars, einkasýningu Söru Riel í Ásmundarsal laugardaginn 26. mars frá kl.16-18.
Sýningin er í öllu húsinu og er sjónræn geimferð frá jörðinni til Mars og aftur til baka aðallega byggð á geimvísindum og fréttum frá árunum 2020-2022.
Listamaðurinn beitir fjölbreyttri tækni til að fjalla um grundvallarspurningar svo sem uppruna, tilgang, siðferði og örlög. Mikilfengleiki vísindaafreka mannsins kallast á við smæð hans í geimnum. Tæknihyggja og framfaratrú mætir dulspeki og fortíðarrómantík. Geimferðir sýna okkur jörðina í nýju ljósi en þekja hana smám saman geimrusli, svo hætt er við að við lokumst inni.
Sýningin samanstendur af málverkum, teikningum, grafík, ljósmyndum, lágmyndum, innsetningu og veggverkum.
_
Sara Riel (f. 1980) nam höggmyndalist við Kunsthochschule Weissensee-Berlin, og útskrifaðist með meistaragráðu og sem heiðursnemandi DAAD 2005 og meistaranemi (post-grad) árið 2006.
Á námsárunum tók Sara virkan þátt í alþjóðlegu starfi götulistamanna í Evrópu og Bandaríkjunum. Myndlist Söru einkennist af tilraunamennsku, leikgleði og tæknilegum metnaði. Sara hefur tileinkað sér fjölbreytta tækni sem hún notar til að útfæra verk sín. Öll eiga þau þó rætur í teikningunni enda lítur hún fyrst og fremst á sig sem teiknara.
Samhliða veggjalistinni hefur Sara þróað sitt eigið myndræna tungumál. Hún hefur sýnt verk sín í flestum höfuðsöfnum Íslands og tekið þátt í fjölmörgum sýningum hérlendis og erlendis og verið heiðruð af virtum menningarstofnunum. Verk eftir hana eru í eigu bæði stofnana og einkasafnara. Hún er meðlimur í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur og SÍM.
Nánari upplýsingar á sarariel.com
Facebook: https://www.facebook.com/events/938408460190725