Áramótakveðja formanns
fimmtudagur, 4. janúar 2024
Áramótakveðja formanns
Kæru SÍM-félagar!
Við áramót hvarflar hugurinn til þeirra verkefna sem stjórn SÍM hefur haft til umfjöllunar á árinu 2023 og til þeirra verkefna sem glímt verður við á nýbyrjuðu ári.
Fréttabréf SÍM hefur komið út alla fimmtudaga á árinu og hefur það tekið nokkrum breytingum.
Verkefnið “Borgum listamönnum” er enn í vinnslu. Góðir hlutir gerast hægt, og nú hefur Ljósmyndasafn Reykjavíkur bætst í hinn góða hóp safna sem styðja þetta mikilvæga framtak.
Fulltrúar SÍM hafa átt einnig fundi með forstöðumönnum listasafna á stórhöfuðborgarsvæðinu í þeim tilgangi að efla samstarf og leita leiða til að bæta það til hagsbóta fyrir myndlistarmenn.
Stjórn og fulltrúar SÍM í samvinnu við BÍL þrýsta stöðugt á ríkisstofnanir um að fjölga starfslaunum og jafnframt að hækka þau þannig að upphæð þeirra haldi í við verðbólguna. Við hefðum viljað sjá meiri hækkun en þau sex prósent sem er niðurstaðan í meðförum Alþingis, en þetta er þó skref í rétta átt
Vinnustofur listamanna og gestavinnustofur eru eitt af stóru verkefnum SÍM, og stöðugt er leitað að hentugu húsnæði fyrir fleiri vinnustofur fyrir listamenn okkar. SÍM starfrækir níu vinnustofu-klasa sem allir eru í fullri notkun. Flestir klasarnir hafa haldið opnar vinnustofur á árinu og sumir oftar. Aðsókn að viðburðunum hefur farið stöðugt vaxandi og er ánægjulegt að sjá hve þessi kynning myndlistarmanna hefur jákvæð áhrif út í samfélagið.
Gestavinnustofurnar á Seljavegi, Hafnarstræti og Korpúlfsstöðum hafa verið verið í fullri notkun og standa því fjárhagslega undir kostnaði. Gestalistamenn hafa haldið fjölmargar sýningar á Korpúlfsstöðum og einnig í SÍM Gallery (Hafnarstræti), og jafnframt staðið fyrir mörgum listkynningum í fyrirlestrarsalnum.
Við erum ánægð að geta áfram boðið félagsmönnum upp á vinnustofudvöl erlendis, þar sem þeir fá aðstöðu til að vinna og stunda rannsóknir. Forsenda þessa er að SÍM hefur gert samninga um vinnustofuskipti við samtök í Búdapest, Bratislava og Vantaa í Finnlandi. ´
Aðsókn í gestaíbúðir SÍM í Berlín og Aþenu er góð og alla jafna fullbókað.
Sýningarsalir SÍM, Hlöðuloftið á Korpúlfsstöðum og SÍM Gallerí í Hafnarstræti hafa báðir verið fullbókaðir allt árið. Þörfin fyrir sýningaraðstöðu er greinilega mikil, sem stöðugt vaxandi eftirspurn eftir sýningarplássum ber vott um, enda ná bókanir sýningartíma fram á árið 2025.
TORG Listamessa 2023 gekk vel, aðsókn var góð og sala ágæt. Sýningarstjóri var Ayiz Zita, En eins og oft áður var skortur á básum.
Það er stöðugt þörf á því að kynna ráðamönnum, bæði borgar-og ríkis starfsemi SÍM og starfsaðstæður myndlistarmanna. Því var farið af stað með kynningarátak og stóðum við fyrir mörgum kynningarfundum þar sem tekið var á móti fulltrúum þeirra á Seljavegi, í Hafnarstræti og á Korpúlfsstöðum. Þessu átaki verður síðan fylgt eftir á næstu mánuðum.
Eftir því sem starfsemi SÍM á Korpúlfsstöðum hefur eflst þá hefur áhugi annarra hópa fyrir því að komast yfir aðstöðuna aukist, og hafa stjórn og starfsmenn SÍM þurft að berjast fyrir því að halda húsnæðinu, og einnig að ná fram einhverju lágmarks viðhaldi á húsnæðinu.
Við höfum útbúið kynningarefni um framtíðaráform fyrir húsnæðið fyrir ráðamenn borgarinnar, þar sem við höfum þrýst á að þar verði starfrækt listamiðstöð.
Nýlega urðu kaflaskil í þessari baráttu þegar borgarstjóri og borgarstjórn samþykktu að skipa vinnuhóp sem á að koma með tillögur um nýtingu á Korpúlfsstöðum sem “Listamiðstöð í Reykjavík” og hefst sú vinna í byrjun árs 2024, og að sjálfsögðu munum við eiga fulltrúa stjórnar SÍM í vinnuhópnum.
Framundan eru nokkrir ánægjulegir viðburðir en SÍM mun efna til Hlöðuballs á Korpúlfsstöðum í febrúar og hlökkum við til að sjá sem flesta þar. Einnig er fyrirhuguð grasrótar myndlistarsýning í apríl og í sumarbyrjun verður haldið upp á 200 ára afmæli SÍM hússins í Hafnarstræti 16 með sögu-sýningu og opnu húsi.
Haustið kemur svo með TORG sem haldið verður í sjötta sinn.
Samstarf stjórnar og starfsfólk SÍM ásamt formönnum fagfélaganna, hefur verið mikilvægt og gefið góða raun. Ég vil þakka öllum sem hafa tekið að sér setu í nefndum og ráðum fyrir hönd sambandsins fyrir störf þeirrra á árinu sem var að líða.
Félagsmönnum SÍM þakka ég fyrir gott og viðburðaríkt samstarf á liðnu ári og mun, sem formaður SIM, halda áfram að berjast fyrir réttindum okkar!
Með ósk um gleðilegt, gæfuríkt og skapandi ár.
Anna Eyjólfs