Áferð hins óséða í Gallerí Gróttu
fimmtudagur, 19. september 2024
Áferð hins óséða í Gallerí Gróttu
Alfa Rós Pétursdóttir er myndlistarkona sem brúar bilið milli samtímalistar og hefðbundins handverks. Í erfðaefni listar hennar eru litir, flæði og form ásamt knýjandi þörf fyrir að kanna hið óþekkta í umhverfinu og sjálfri sér. Verkin samanstanda af blöndu af útsaumi, flosi og öðrum handverksaðferðum.
Alfa útskrifaðist með BA gráðu frá Gerrit Rietveld akademíunni í Amsterdam árið 2011. Eftir útskrift flutti hún aftur til Íslands, vann í hlutastarfi við listina og sýndi verk sín ásamt fullu kennslustarfi auk þess að ljúka MA gráðu í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem listamaður frá og með árinu 2018, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Alfa hlaut menningarstyrk frá ASS (American Scandinavian Society) árið 2023 og er skráð hjá New York galleríinu Pen&Brush.
Sýningin er opin á afgreiðslutíma bókasafnsins. Síðasti sýningardagur er laugardagurinn 12. okt. nk.