ÁBATI – hugleiðing um efni
fimmtudagur, 7. nóvember 2024
ÁBATI – hugleiðing um efni
Á sýningunni Ábati: hugleiðing um efni fjallar Helgi Vignir Bragason um flókna og umdeilda ríkisframkvæmd í óteljandi lögum. Helgi myndar byggingarnar á framkvæmdatíma þegar verk liggja niðri og fangar þannig tilurð byggingar og aðdráttaraflið sem felst í augnablikinu þegar allt er hljótt og rykið sest. Við sjáum djúpt inn í óravíddir mannvirkisins. Ljósmyndavélin fangar hrá yfirborð, flækta taugaenda og marglaga strúktúra. Hálfkveðnar setningar. Þar býr fegurð í eðli hluta og efna sem hafa ferðast mörg þúsund kílómetra leiðir úr öllum heimshornum. Vatnið - eina innfædda efnið, seytlar upp úr holum og þreifar á framandi efnum. Blandast dönsku sementi. Steypustál frá Belarus hefur ferðast 4000 km leið. 280 þúsund rúmmetrar af jarðefnum hafa verið fjarlægðir af þessum stað og stækka nú landið á öðrum stað í formi landfyllingar.
Myndlistarmaðurinn Helgi Vignir Bragason (f. 1972) útskrifaðist úr diploma námi í Skapandi ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum árið 2023 og er einnig með B.Sc. gráðu í byggingafræði og M.Sc. gráðu í framkvæmdastjórnun. Verk Helga tengjast gjarnan áratuga reynslu hans úr byggingariðnaðnum. Myndefnið verður marglaga greining á upphafi og endalokum bygginga þar sem Helgi skoðar á myndrænan og gagnrýninn hátt fjölmarga fleti byggingariðnaðarins s.s. nýtingu, sóun og umhverfisáhrif.
Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir arkitekt.
Um sýningarrýmið:
Slökkvistöðin er sjálfstætt sýningar- og viðburðarými fyrir arkitekta og áhugafólk um arkitektúr og rýmislist, til húsa í slökkvistöð fyrrum Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi.
Sýningin stendur yfir í Slökkvistöðinni í Gufunesi 1.- 17. nóvember 2024
Opið föstudaga 16-18 laugardaga & sunnudaga 14-17