Hernám Ísraelsmanna á Gaza hefur haft yfirgripsmikil og margþætt áhrif á myndlist, sem einkennast af kúgun og eyðileggingu, en jafnframt skapandi mótspyrnu listamanna. Staðfest greiningarvinna ber vitni um afhroð og eyðileggingu menningarlegra innviða á Gazaströndinni. Á móti kemur seigla og viðnámsþróttur listamanna sem nýta sér aðferðir myndlistar sem tæki til andspyrnu og staðfestingar á sjálfstæði sínu.
Myndlist á Gaza hefur breyst frá því að leggja áherslu á hefðbundin þjóðernissinnuð gildi og að túlka söguleg viðfangsefni yfir í að varpa ljósi á daglegt líf undir hernámi og andóf. Í upphafi styrjaldarinnar varð pólitísk list á Gaza fyrir mikilli ritskoðun, þar sem sýningum listamanna var iðulega lokað, þeir handteknir og verk þeirra eyðilögð. Þrátt fyrir þessa erfiðleika hefur listin verið mikilvæg leið til að skilgreina palestínska sjálfsmynd undir ægivaldi innrásarliðsins. Listamönnum hefur tekist að snúa á þöggunartilburði innrásarhersins með því að nýta á skapandi hátt tákn eins og palestínska fánann og gera list sína áberandi á landamæramúrum og eftirlitsstöðvum hersins.
Fjöldi menningarstofnana, sýningarrýma, safna og skjalasafna í Gaza hefur orðið fyrir viðamiklum skemmdum eða verið lagður í rúst sem hefur útmáð stóran hluta menningararfs þjóðarinnar og hindrað til mikilla muna möguleika listamanna til að sinna listsköpun sinni. Ísraelsher hefur eyðilagt fjölda mikilvægra listastofnana, auk þess sem fjölmargir listamenn hafa verið drepnir eða hraktir á flótta. Umsátur Ísraelsmanna hefur einnig leitt til viðvarandi skorts á efniviði og tækjum til myndlistar, þannig að listamenn hafa þurft að aðlaga sig að aðstæðum með því að nota þau efni sem til falla á svæðinu, eins og poka undan hveiti, kassa undan neyðaraðstoð og annað efni sem hægt er að vinna myndir á.
Þrátt fyrir viðvarandi áföll og almennan sálrænan skaða íbúa hafa hafa listamenn á Gaza þróað leiðir til að viðhalda listsköpun sinni og umbreytt þannig viðvarandi sársauka og sorg í tákn vonar og mótstöðu. Nýjar tjáningarleiðir fela meðal annars í sér net-aktivisma sem birtist meðal annars í að birta „stríðsplaköt“ á netinu. Þessi tjáningarleið hefur gert listamönnum kleift að yfirvinna efnislegar hindranir við tjáningu og ná til alþjóðlegs hóps áhorfenda. Þeir hafa einnig gert myndlist á
girðingar og múra sem loka af svæðum Palestínumanna sem og á aðra opinbera staði. Þessar aðferðir eru dæmi um friðsamlega leið myndlistarmanna til að leggja áherslu á baráttu sína fyrir tilverurétti palestínsku þjóðarinnar og vekja athygli á málefnum Palestínu, með áherslu á sjálfstæði, þrautseigju og skapandi mótspyrnu.
Staðfestar rannsóknir sýna að atburðir undanfarinna ára hafa haft djúpstæð sálræn áhrif á alla palestínska listamenn; margir geta ekki lengur sinnt listsköpun sinni vegna áfallastreitu eða vegna þess að þeir þurfa að eyða öllum kröftum til að tryggja lífsafkomu sína og fjölskyldu sinnar. Engu að síður heldur listin áfram að vera mikilvægur þáttur í mótspyrnu og heldur samfélaginu saman, þar sem listamenn á svæðinu berjast fyrir menningarlegri tilvist sinni. Innrás Ísraelsmanna hefur haft afdrifaríkar afleiðingar á inntak og aðferðir myndlistar á Gaza, listamenn hafa aðlagast breyttum aðstæðum og vinna nú í öflugu samstarfi innbyrðis við að efla alþjóðlegan sýnileika palestínskrar listar.
Greiningar fræðimanna á afleiðingum innrásar Ísraelsmanna á Gaza sýna fram á gífurlega eyðileggingu menningarlegra innviða og afar alvarleg sálræn áhrif hörmunganna á listamenn. Þrátt fyrir það hefur myndlistin þraukað og þróað mikilvægar leiðir til að sýna mótstöðu, leiðir sem sýna fram á mikla þrautseigju listamanna og hæfileika til aðlögunar.
Samantekt: Hlynur Helgason.
——————————
SÍM styður baráttu palestínskra myndlistarmanna við að koma list sinni og reynslu á framfæri við skelfilegar aðstæður undir stanslausri ógn um líf og öryggi. SÍM fordæmir jafnframt gífurlega eyðileggingu Ísraelsmanna á menningarlegum innviðum og verðmætum á Gaza, drápum og eyðingu sem hefur orsakað viðvarandi sálrænan skaða fyrir palestínska þjóð.
Heimildir
Cultural Creations in Times of Occupation: The Case of the Visual Arts in Palestine, IEMed, https://www.iemed.org/publication/cultural-creations-in-times-of-occupation-the-case-of-the-visual-arts-in-palestine/
Memory and Resistance in Palestinian Art, tricOntinental Asia, https://thetricontinental.org/asia/ticaa-03-resistance-palestine-art/
Palestinian Visual Arts (III), Interactive encyclopedia of the Palestine question, https://www.palquest.org/en/highlight/10591/palestinian-visual-arts-iii
The Third Preliminary Report on the Cultural Sector's Damages, Palestine ministry of culture, https://palestineembassy.ie/wp-content/uploads/2024/01/The-Third-Preliminary-Report-on-the-cultural-Sectors-Damage-Gaza.pdf
The Genocide War on Gaza: Palestinian Culture and the Existential Struggle, Institute for Palestine studies, https://www.palestine-studies.org/en/node/1655237
'There are no colours left': Gaza's artists tell their stories, The Art newspaper, https://www.theartnewspaper.com/2024/05/03/there-are-no-colours-left-gazas-artists-tell-their-stories
Art as survival: Gaza's creators transform pain into protest, Al Jazeera, https://www.aljazeera.com/features/2025/2/12/art-as-survival-gazas-creators-transform-pain-into-protest
Gary Bratchford, Visual Activism in Israel, the Occupied Palestinian Territories and Gaza, PHD MIRIAD, https://e-space.mmu.ac.uk/618936/1/PhD%20-%20Visual%20Activism%20in%20Israel,%20the%20Occupied%20Palestinian%20Trritories%20&%20Gaza%20-%20Gary%20Bratchford%20-%202016.pdf
Visual Arts and Creative Direct Action in Palestine, International institute of social studies, https://thesis.eur.nl/pub/10746/111130-RP-CGR-Final.pdf
AbdulRahman Sabreen, Odeh Huda,og Naseem A Nesma, Study on the Arts and Culture Sector in Palestine, https://www.eda.admin.ch/content/dam/countries/countries-content/palestinian-authority/en/study-arts-culture-oPt_EN.pdf
Elias Feroz, Palestinian Art Under Israeli Occupation, Jacobin, https://jacobin.com/2024/05/palestinian-art-sliman-mansour


