top of page

Sigrún Hlín Sigurðardóttir: ALLTAF AÐ – 8.4 – 30.4 2023

508A4884.JPG

fimmtudagur, 6. apríl 2023

Sigrún Hlín Sigurðardóttir: ALLTAF AÐ – 8.4 – 30.4 2023

Laugardaginn 8. apríl kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Sigrúnar Hlínar Sigurðardóttur í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið Alltaf að og stendur til sunnudagsins 30. apríl. Listakonan verður viðstödd opnun sýningarinnar og boðið verður uppá léttar veitingar.

Verkkvíði og frestun hefur blundað í manninum frá örófi alda. Í flestum löndum fyrirfinnst útgáfa af þjóðsögunni um stúlkuna (og stundum pilt) sem er svo mikill skussi að hún veldur ekki verkinu sem hún hefur tekið að sér, oftar en ekki að spinna eða prjóna eða eitt handaverkstengt. Á síðustu stundu gefur sig fram einhver vættur; tröll eða galdradvergur - eða Satan sjálfur, og býðst til að lyfta undir bagga, jafnvel græja þetta alfarið fyrir viðkomandi – en vill þá líka fá eitthvað fyrir sinn snúð, frumburð, sál eða eitthvað þaðan af verra. Hinn móralski boðskapur er jafnan einfaldur og skýr: Leti er af hinu illa og hyskið kvenfólk telst heppið ef því er ekki refsað fyrir að svíkjast undan. Í velmegandi nútímasamfélags er letin hins vegar því sem næst dyggð. Það á að stytta vinnuvikuna, vekja almenning um vitundar um kulnun í starfi og ef einhverjum verður það á að ofgera sér í starfi er það blaðamál. Erfiðisvinnu er úthýst, framleiðslan fer meira og minna fram erlendis, einkum utan hins vestræna heims þar sem vinnuafl er ódýrt og umræðan um kulnun og mikilvægi þess að hlaða batteríin skemur á veg komin.

Á sýningunni Alltaf að er tæpt á þessum hugmyndum í verkum sem eru handprjónuð úr endurunnu og handspunnu bandi, og vísa þannig í hefðbundið handverk. Verkin taka á sig form peysu, en peysunum er ekki ætlað að halda hita á neinum, þær gera ekki annað en að skemmta skrattanum.

,,Þessum háleitu hugmyndum hefur sambýliskona mín ákveðið að gera skil með því að prjóna um þær, og til þess hefur hún varið ótöldum stundum, meðan hún tærir upp allt heilbrigt vitsmunalíf með afþreyingarfroðu og gereyðir þarmaflórunni með gosþambi. Ég sit hins vegar uppi með barnauppeldið og matseldina, þríf bílinn og lími saman eldhússtólana sem hún hefur riðið á slig með gassaganginum í sér, og ekki lætur hún þar við sitja, heldur hefur falið mér að skrifa þennan texta, og vill að ég leggi nafn mitt við hann. Afraksturinn getið þið séð á þessari sýningu, og ég segi bara: Verði ykkur að góðu.‘‘ - Texti: Friðgeir Einarsson

Sigrún Hlín Sigurðardóttir (1988) lauk B.A.-prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og M.A.-prófi frá Háskólanum í Bergen árið 2021. Hún vinnur mestmegnis með textíl og teikningu og hefur sýnt textílinnsetningar sínar m.a. í Nýló, Skaftfelli, og í Bergen, Noregi.

Frekari upplýsingar veita: Elísabet s. 868 1845 og Sigrún Hlín s. 690 8869 - sigrunhl@gmail.com

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page