Samofið í Gallerí Gróttu laugardaginn 18. mars kl. 14-17

fimmtudagur, 9. mars 2023
Samofið í Gallerí Gróttu laugardaginn 18. mars kl. 14-17
Elín Þóra Rafnsdóttir opnar sýningu í Gallerí Gróttu laugardaginn 18. mars 2023 undir yfirskriftinni Samofið. Elín nam myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1976 -78, í Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn 1978 – 1982 og í Bandaríkjunum 1982 til 1986. Verk hennar hafa verið á sýningum víða um heim, á einkasýningum og samsýningum.
Verkin á sýningunni eru unnin með blandaðri tækni; olíu, akrýl, vatnslit og bleki og eru þau flest óræðar náttúrustemmur og landslag þar sem unnið er með áferð jarðar, íss og gróðurs.
Elín sækir sér innblástur í íslenska náttúru og útivist svo og í kennslu en hún hefur um árabil kennt myndlist á framhaldsskólastigi. Í verkum sínum dregur hún upp óvæntar og óhlutbundnar hliðar á landslagi og náttúru og lætur tilfinningar og margvíslegan efnivið ráða för í sköpunarferlinu. Þannig býr hún til óvænt sjónarhorn á myndefnið og veitir því nýjar víddir.
Sýningu lýkur 15. apríl.
ATH! Gengið er inn frá Eiðistorgi í Gallerí Gróttu á opnunardaginn.