Sýningaropnun í Ásmundarsafni á Safnanótt: Sigga Björg Sigurðardóttir og Ásmundur Sveinsson: Andardráttur á glugga

miðvikudagur, 1. febrúar 2023
Sýningaropnun í Ásmundarsafni á Safnanótt: Sigga Björg Sigurðardóttir og Ásmundur Sveinsson: Andardráttur á glugga
Föstudaginn 3. febrúar kl. 17.00 verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur Ásmundarsafni ný sýning sem ber heitið
Sigga Björg Sigurðardóttir og Ásmundur Sveinsson: Andardráttur á glugga.
Listasafn Reykjavikur hefur um þónokkurt skeið kynnt ný verk starfandi listamanna í Ásmundarsafni, þar sem þau kallast á við myndheim Ásmundar Sveinssonar og einstakt „kúluhús“ hans í Laugardal.
Á þessari sýningunni opnast heimur trölla, álfa, drauga og annarra kynjavera og áhersla lögð á þjóðsögur, ævintýri og ímyndunarafl.
Myndlistarkonan Sigga Björg Sigurðardóttir er kunn af hugmyndaríkum teikningum sínum, innsetningum, myndböndum og bókverkum. Hún hefur skapað einstakan myndheim þar sem fantasía, húmor og hryllingur fara saman hönd í hönd. Á þessari sýningu vinnur hún meðal annars nýja myndröð út frá íslenskum þjóðsögum og eru verk hennar unnin jöfnum höndum á veggi sýningarsala og á pappír.
Ásmundur Sveinsson starfaði í takt við stefnu og strauma í módernískri framvindu 20. aldar og vann alla tíð með efni og form. Í æsku kynnist hann þjóðsögum og sagnaminnum og margt af því rataði með beinum eða óbeinum hætti inn í verk hans.
Sýningin opnar á Safnanótt 3. febrúar en þá opna fjölmörg söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá.
Í Ásmundarsafni verður vasaljósaleiðsögn um sýninguna kl. 19.30 og kl. 21.30 hefst kvöldvaka með húslestri og samsöng.
Fjölbreyttir viðburðir verða meðan á sýningunni stendur og má nefna að alla þriðjudaga kl. 16.15 verða lesnar þjóðsögur í Ásmundarsafni fyrir börn og fjölskyldur þeirra.