Portfolio Gallerí: Samsýning 12 listamanna
föstudagur, 3. desember 2021
Portfolio Gallerí: Samsýning 12 listamanna
Á jólsýningu Portfolío Gallerí gefur að líta samantekt af verkum þeirra listamanna sem sýnt hafa í galleríinu á liðnu ári auk listamanna sem tengjast galleríinu. Portfolío opnaði fyrr á þessu ári og er hér því um að ræða tiltölulega nýjan metnaðarfullan sýningarstað sem í komandi framtíð mun auka svo um munar litbrigði Íslenskrar myndlistarflóru.
Föstudaginn 3. desember verður samsýning í Portfolio gallerí, að Hverfisgötu 71. Þar sýna saman allir þeir listamenn sem sýnt hafa í Portfolio gallerí árið 2021 ásamt nokkrum gesta listamönnum. Sýningunni lýkur með jólaglögg á Þorláksmessu, 23. desember.
Velkomin á opnun sýningar í Portfolio Galleríi Hverfisgötu 71 næstkomandi föstudag þ. 3. desember kl. 17.
Galleríið er opið frá kl. 14 -18 fimmtudaga – sunnudaga og 17. – 23. desember alla daga frá kl. 14 – 21
Það gleður okkur að sýna verk eftir 12 listamenn:
Auður Ómarsdóttir vinnur myndlist sína í blönduðum miðlum en einna helst í málverki, skúlptúr, ljósmyndun og teikningu. Auður hlaut BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og MA gráðu frá Listaháskólanum í Bergen 2021.
Árni Páll Jóhannsson myndlist hans á uppruna sinn í deiglu áttunda áratugarins þegar Fluxus- og konseptlist var að ná þroska í meðförum íslenskra listamanna. En verk hans bera líka sterkan keim af minimalisma – þeirri hugmynd að myndlistin skyldi vera eins knöpp og mögulegt er, að þar eigi ekkert heima nema það sem nauðsynlegt er til að koma inntaki verksins til skila.
Bjarni Sigurbjörnsson hefur haldið fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis í rúma þrjá áratugi. Bjarni stúderaði í skólanum San Francisco Art Institude árin 1990-96 þar sem hann lauk bæði BFA og MFA námi í myndlist með áheyrslu á málverk
Björgvin Jónsson gengur undir listamannsnafninu V.K.N.G. Hann útskrifaðist með láði úr School of Visual Arts í New York árið 2018. V.K.N.G. er frumlegur í sinni list og kemur hugarheim sínum vel til skila. Hann vinnur mikið með óhefðbundinn efnivið.
Erla Þórarinsdóttir vinnur jöfnum höndum með málverk, skúlptúra, ljósmyndir, hönnun og innsetningar. Erla lærði við Konstfack-listaháskólann í Stokkhólmi og Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam. Hún á að baki fjölda einkasýninga og samsýninga á Íslandi og erlendis.
Gotti Bernhöft hefur starfað sem hönnuður, myndskreytir og listamaður um allan heim. Segja má að Gotti hafi hafið sinn opinbera listamanna feril sem graffiti eða götulistamaður um 1985. Gotti er me BA próf í Sjónlegum samskiptum ( Visual Communication ) Frá The American College for the Applied Arts, Los Angeles.
Mireya Samper lærði myndlist í Myndlistarskólanum á Íslandi og í lista háskólanum í Marseille, Frakklandi. Hún hefur sýnt skúlptúra, innsetningar, málverk og útilistaverk um heim allan. Hún hefur einnig unnið við kvikmyndagerð og sjónvarp. Mireya sér einnig um Fresh Winds Festival sem á sér stað í Garði annað hvert ár og hlaut Eyrarrósina árið 2018.
Ragnheiður Guðmundsóttir verk hennar eru unnin með blandaðri tækni þar sem pappír, textíll, olíulitir, vatnslitir, kol, þæðir, bývax o.fl. blandast saman í órofa heild. Áferð og lög efna eru áberandi í verkum hennar. Eins hefur hún unnið með videó og textíl innsetningar. Ragnheiður hlaut BA gráðu frá LHÍ vorið 2000 og MA gráðu í myndlist frá sama skóla vorið 2019.
Sigrún Ólafsdóttir teikningar í rými, rúmtak í fletinum – þannig mætti auðkenna skúlptúrverk og teikningar Sigrúnar Ólafsdóttur. Listakonan vinnur með tvo miðla sem virðast gjörólíkir í eðli og ásýnd – skúlptúrverk og teikningu. Hún nam nám við myndmótunardeild MHÍ og Hochschule der Bildenden Künste Saarbrücken.
Sigthora Odins vinnur tvívíða skúlptúra með blandaðri tækni, en verk hennar taka sér form meðal annars á pappír, í videomiðli og á striga. Sigthora útskrifaðist með BA í myndlist frá LIstaháskóla Íslands árið 2015.
Sævar Karl hefur stundað myndlistarnám við ýmsa listaháskóla hérlendis í Þýskalandi og Austurríki. Hann hefur sýnt víða um heim m.a. í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Englandi.
Yiwei Li kemur frá suður hluta Kína.Hún er útskrifuð úr Listaháskóla íslands og starfar sem ljósmyndari. Hún hefur búið á íslandi í átta ár. Flestir þekkja hana undir listamanna nafninu stocktoon.
Portfolio gallerí er sýningarstaður sem leggur áherslu á fjölbreytta og ögrandi myndlist. Galleríið er með listamenn á sínum snærum sem eru í sterkum tengslum við þau viðfangsefni sem eru í deiglu samtímalistarinnar. Á það við bæði þá eldri listamenn sem þar eru og þá yngri sem eru að byrja að brjóta sér leið inná vettvang Íslenskrar myndlistar. Portfolío gallerí fer þvert á gömul viðmið, stefnu og strauma. Þar af leiðandi verður til ólgandi suðupottur þeirra ólíku hugmynda og aðferða sem einkennir list samtímans og oft er lagt að jöfnu við það sem er kallað postmodernismi. Hér er opin hugsun höfð að leiðarljósi fyrir öllum þeim ófyrirséðu möguleikum sem frjáls en sjálfsgagnrýnin myndlist hefur uppá að bjóða hvort heldur þar séu gamlar aðferðir notaðar á meðvitaðan hátt með öllum sínum skýrskotunum og tilvísunum eða nýjungin sé í fyrirrúmi með löngun sinni fyrir uppbrot eða jafnvel eyðingu hefðarinnar og þess gildismats sem hún hefur. Einstaklega ferskur blær svífur yfir vötnum í Portfolíó gallerí, þar er ávallt eitthvað áhugvert á boðstólnum fyrir listunnendur skemmtilegrar og krefjandi myndlistar.