Multis: Fimm teikningar - Gunnhildur Hauksdóttir
miðvikudagur, 8. desember 2021
Multis: Fimm teikningar - Gunnhildur Hauksdóttir
Multis kynnir "Fimm teikningar" sem er fjölfeldi eftir Gunnhildi
Hauksdóttur myndlistarmann ásamt nýjum blekverkum í upplagi í
sýningarými MULTIS að Tryggvagötu 21, Hafnartorgi, fimmtudaginn 09.12.21
kl. 17-19.
"Fimm teikningar" er innsetning sem saman stendur af tveim hljóðrásum,
skúlptúr og teikningum. Verkið er hluti af röð verka þar sem Gunnhildur
vinnur með umbreytingu teikninga yfir í raddskrár.
Gunnhildur vann með fimm ungar djass söngkonur í Listaháskólanum í
Klaipeda
í Litháen. Ein söngkona túlkar hverja teikningu fyrir sig. Gunnhildur
kenndi þeim á teikningarnar og smíðaði tvíóma (binaural) hljóðnema fyrir
upptökurnar. Tvíóma hljóðnemi tekur upp hljóðið og afstöðu hljóðsins
gagnvart hljóðnemanum í rýminu. Söngkonurnar sungu og hreyfðu sig í
kringum hljóðnemann samkvæmt teikningunum og úr varð verkið Fimm
teikningar. Hljóðneminn umbreyttist í skúlptúr og varð þannig hluti af
verkinu. Verkið er eingöngu í kynningu og sölu hjá Multis.is
Framsetningin í Multis samanstendur af tveggja rása hljóðinnsetningu með
silkiþrikki af teikningum sem verða nú til sýnis á útgáfuhófi Multis.
Fimm lagskiptar teikningar, þ.e.a.s. teikningarnar liggja hver ofan á
annarri í rammanum, þær eru í seríu af fimm og liggja í fimm mismunandi
samsetningu.
Hægt verður að hlíða á hljóðverkið í rýminu.
Upplag 5/5. Að auki er sjötta teikningin stök, af skúlptúrnum sjálfum.
Einnig verða kynnt ný blekverk í upplagi.
//
Gunnhildur Hauksdottir (f. 1972) hlaut MFA frá Sandberg Institute í
Amsterdam, Hollandi árið 2006 og BFA Listaháskóla Íslands árið 2002.
Gunnhildur sat í stjórn Nýlistasafnsins í Reykjavík árin 2010 – 2015 og
var formaður stjórnar og safnstjóri 2011 – 2014. Hún situr í varastjórn
Skaftfells miðstöð myndlistar á Seyðisfirði. Hún er stundakennari við
Listaháskóla Íslands og hefur haldið námskeið þar og víðar. Hún er
leiðbeinandi hjá UNM (Ung Nordisk Musik) og þáttakandi í Between the Sky
and the Sea, Temporal Horizons sem PAB (Performance Art Bergen) heldur
árið 2022.
Verk hennar er að finna í safneignum Listasafns Íslands og
Nýlistasafninu í Reykjavík. Í safneign Uppsala Konstmuseum og Goethe
Institute í Kaupmannahöfn og Hess Gallery, safneign Háskólans í
Lethbridge í Kanada. Verk hennar hafa verið flutt og tekin til sýninga
víða á ferli hennar. Hún tók m.a. þátt í Silver Lining, Collateral
Event á 56. Feneyjatvíæringnum árið 2015. Hún hefur sýnt í Listasafni
Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Galleria Municipal do Porto í Portúgal,
í Kunstmuseum Liechtenstein, Uppsala Konstmuseum og í 21 Haus hjá
Belvedere Museum í Vín.
Hér er að finna vefslóð á facebook viðburð:
https://www.facebook.com/events/1061843261335803/?ref=newsfeed
Heimasíða Gunnhildar Hauksdóttur:
https://www.gunnhildur.this.is/five-drawings