Mokka kaffi: Hitt kynið - Katrín Matthíasdóttir
miðvikudagur, 24. nóvember 2021
Mokka kaffi: Hitt kynið - Katrín Matthíasdóttir
Titill sýningarinnar Hitt kynið er fenginn að láni frá grundvallarriti femínískra fræða Le Deuxième Sexe eftir skáldið Simone de Beauvoir, en ritið kom út árið 1949.
Sýningin er óður til kvenna – móður minnar og allra kvenna, ásjóna fáeinna er fest hér á pappír, hinar eru með okkur í anda.
Hvað hefur það í för með sér að vera kona í dag? Þið megið sko bara spá í það sjálf. Til dæmis hér og nú - eða á eftir - eða síðar.
Simone de Beauvoir ferðaðist um Ísland árið 1951 með lífsförunaut sínum, heimspekingnum Jean-Paul Sartre. Ef Mokka kaffi hefði verið til þá, er nokkuð ljóst að þau hefðu fengið sér kaffi þar og með því. Sjö árum seinna eða árið 1958 opnar Kaffi Mokka og sama ár kom önnur kona til Íslands, sú kom frá Þýskalandi. Þetta var mamma mín. Hún skellti sér ekki bara einu sinni heldur margoft á Kaffihúsið við Skólavörðustíginn og þegar við systkynin þrjú urðum eldri nutum við þess einnig að sitja í bás, drekka kakó og borða vöflur með foreldrum okkar. Reyndar sá faðir minn lengi vel ekki tilgang með því að fara á kaffihús þegar maður gat drukkið kaffi heima hjá sér og var hann orðin 27 ára þegar hann áttaði sig á villu síns vegar. En þá varð 180 gráðu kúvending – enda var hann kallaður höfðingi slæpingjanna um tíma vegna tíðra kaffihúsaheimsókna. Kaffihúsagenið erfist til dóttur, þrír synir fylgja og eiginmaðurinn verður fyrir innblæstri á kaffihúsi.
Konan mín sýnir af kraftmiklum þokka
kynstrin vill gjarnan að myndunum lokka
á könnunni er heitt
það kostar ei neitt
að kíkja í bæinn á Kaffi Mokka